Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

 Rendeiro tryggði Keflavík fyrsta sigurinn
Jonathan Glenn var orðinn órólegur á lokamínútunum og fagnaði vel þegar flautað var til leiksloka. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 25. maí 2024 kl. 17:57

Rendeiro tryggði Keflavík fyrsta sigurinn

Melanie Rendeiro skoraði mark Keflavíkur gegn Þrótti í fyrsta sigrinum á þessu tímabili í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. Þetta voru jafnframt fyrstu stig Keflavíkur á leiktíðinni.

Grindvíkingar léku við Aftureldingu í gær í Lengjudeild kvenna og þar voru það Mosfellingar sem höfðu sigur með einu marki gegn engu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Markaskorarinn Rendeiro fékk innilegt faðmlag frá Guðrúnu Jónu Kristjánsdóttur, aðstoðarþjálfara Keflavíkur, eftir að flautað hafði verið til leiksloka.

Keflavík - Þróttur 1:0

Talsverður vindur setti sitt mark á leikinn sem var frekar tíðindalítill framan og markalaust í hálfleik.

Í seinni hálfleik  fór aðeins að lifna yfir leiknum og á 70. leit eina mark leiksins dagsins ljós. Þá tóku Keflvíkingar hornspyrnu inn í teiginn en Þrótturum tókst ekki almennilega að hreinsa frá og boltinn endaði hjá Melanie Rendeiro sem þakkaði pent fyrir sig með nettu skoti í markið.

Keflvíkingar voru aðgangsharðir fyrir framan mark gestanna og fengu færi til að tvöfalda forystuna en það tókst ekki. Þróttarar reyndu sitt ítrasta í lokin til að jafna og pressan var töluverð á Keflavík en vörnin hélt og að lokum var það mark Rendeiro sem skildi liðin að.

Alma Rós Magnúsdóttir var ekki sátt þegar dómarinn blés ekki í flautuna eftir að varnarmaður Þróttar gaf aftur á markvörðinn sem tók boltann með höndum.

Keflavík og Þróttur höfðu vistaskipti á botni deildarinnar, Keflavík er með þrjú stig en Þróttur eitt.

Fleiri myndir Jóhanns Páls Kristbjörnssonar, ljósmyndara Víkurfrétta, eru í myndasafni neðst á síðunni.


Júlía Ruth Thasapong í baráttu við varnarmann Aftureldingar í gær. Mynd/Petra Rós Ólafsdóttir

Afturelding - Grindavík 1:0

Grindavík tapaði öðrum leik sínum í Lengjudeild kvenna á tímabilinu þegar þær grindvísku þurftu að lúta í gras fyrir Aftureldingu í Mosfellsbæ í gær.

Fyrri hálfleikur var markalaus en eina mark leiksins skoraði Harpa Karen Antonsdóttir fyrir Aftureldingu á 75. mínútu.

Keflavík - Þróttur (1:0) | Besta deild kvenna 25. maí 2024