Ray ekki meira með í sumar
Ray Anthony Jónsson, bakvörður Grindavíkurliðsins í knattspyrnu, verður ekki meira með liðinu í sumar eftir að upp komst að krossbönd í hné hans höfðu slitnað í leik gegn Valsmönnum um síðustu helgi. Þessar fréttir koma sem mikið reiðarslag fyrir Grindvíkinga þar sem þeir eiga við gríðarleg meiðslavandræði að stríða.
Þeir eru hins vegar að fá til sín liðsauka. Mathias Jack, þýskur miðjumaður sem lék með liðinu 2003, kemur til liðsins í næstu viku auk þess sem króatískur sóknarmaður er kominn til liðsins og verður til reynslu næstu daga.
Einnig hefur Scott Ramsey, leikmaður Keflavíkur, æft með Grindavík að undanförnu, en mál hans eru enn óljós.