Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Rautt eða ekki?
Mánudagur 21. maí 2007 kl. 16:12

Rautt eða ekki?

Eitt helsta umræðuefnið eftir leik Keflavíkur og FH í Landsbankadeildinni í gær er atriði sem átti sér stað þegar um 40 sekúndur voru liðnar af leik liðanna. Skemmst er frá því að segja að FH hafði 2-1 sigur í leiknum en Keflvíkingar voru sérlega ósáttir við atburðinn sem um ræðir.

 

,,Við opnum FH vörnina upp á gátt eftir 40 sekúndna leik rétt eins og við vorum búnir að leggja upp á æfingum en þegar leikmaðurinn (Símun Samuelsen) er við það að brjótast í gegn þá er hann rifinn niður, þetta er brottrekstur, einfalt mál,” sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur í samtali við Víkurfréttir.

 

Guðmundur Sævarsson, einn varnarmanna FH reif Símun niður og fékk fyrir vikið að líta gula spjaldið og Keflvíkingar fengu aukaspyrnu á hættulegum stað. ,,Dómarinn brást með því að taka ekki þessa stóru ákvörðun og þarna er tónninn í leiknum gefinn,” sagði Kristján en bætti því við að það hefði margt verið gott í leik Keflavíkur í gær. ,,Jónas og Baldur voru frábærir í leiknum og þá var Símun líka orkumikill. Það er margt að ganga upp hjá okkur og það er bara flott. Við verðum samt að rífa okkur upp úr þessum og megum ekki láta svona lagað slá okkur út af laginu,” sagði Kristján.

 

Rautt spjald á Guðmund hefði vissulega breytt gangi mála í gær en það hefur vafalítið verið skeggrætt yfir ófáum kaffibollum í dag hvort Guðmundur hefði átt að fá rautt eða ekki.

 

Keflavík mætir Breiðablik á fimmtudag og hefst leikurinn kl. 19:15 á Kópavogsvelli. ,,Þetta verður erfiður leikur því hann kemur strax á eftir FH leiknum sem var viss vonbrigði og þá eru Blikarnir einnig með gott lið, leikurinn verður andlega og fótboltalega erfiður, ekki síst andlega,” sagði Kristján.

 

[email protected]

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024