Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 2. desember 1999 kl. 16:32

RAUSNARLEGUR STYRKUR TIL ÍÞRÓTTAFÉLAGA Á SUÐURNESJUM

Bílasala Reykjaness, umboðsaðili fyrir Ingvar Helgason hf. og Bílheima ehf., Gjorby margmiðlun og Samhæfni Tæknilausnir, sem er nýtt tölvuþjónustufyrirtæki, hafa gert styrktarsamning við öll úrvalsdeildarlið í körfuknattleik á Suðurnesjum, þ.e. körfuknattleiksdeild Grindavíkur, Keflavíkur og Njarðvíkur. Samningurinn felur í sér að hver deild fái afnot af nýrri Nissan Almera bifreið næstu fjögur keppnistímabilin. Áætlað verð hverrar bifreiðar er um 1.500.000 kr. og þykir það einstakt að fyrirtæki á Suðurnesjum skuli styrkja íþróttafélögin með þessum hætti. Bifreiðarnar eru ætlaðar erlendum leikmönnum til afnota á keppnistímabilinu. Birgir Bragason, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, sagði að þessi gjöf hefði leyst stóran vanda hjá félaginu sem myndast í upphafi hvers keppnistímabils. „Við erum alveg í skýjunum yfir þessu“, sagði Birgir. Eyjólfur Þór Guðlaugsson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur sagði að samningurinn væri hvalreki fyrir körfuknattleiksdeildina og að hann eigi eftir að leysa mörg vandamál sem deildin hefur verið að glíma við undanfarin ár. „Ég vona að fyrirtækin sem gerðu samninginn við okkur njóti þess eins vel og við“, sagði Eyjólfur. „Það er mjög höfðinglegt hjá þessum þremur fyrirtækjum að styðja okkur á þennan hátt og samningurinn á eftir að breyta mjög miklu fyrir reksturinn hjá okkur næstu fjögur árin“, sagði Gunnar Þorvarðarson, formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024