Rall í Reykjanesbæ í kvöld og á morgun
Nesbyggðarrallið fer fram um helgina og verða sérleiðir eknar bæði í dag og á morgun. Besta áhorfendaleiðin er þegar ekið er um Keflavíkurhöfn. Fyrsti bíll fer um þá leið í kvöld kl. 20:00 en leiðin verður ekin tvisvar í röð í kvöld.
Önnur sérleið sem ekin verður í kvöld og er áhorfendavæn er um Pattersonflugvöll við Hafnaveg. Fyrsti bíll fer af stað um Patterson kl. 18:15. Hægt er að sjá alla sérleiðina frá sprengjuskýlunum á Patterson en áhorfendur verða að vera komnir þangað hálftíma áður en keppni hefst.
Í kvöld verður einnig ekið um Nikkelsvæðið ofan Njarðvíkur og í ökugerði við Reykjanesbrautina. Á þessum leiðum er hins vegar erfiðara fyrir áhorfendur að koma sér fyrir.
Á morgun, laugardag verður ekið um ökugerðið við Reykjanesbraut, Patterson, Nikkelsvæðið, Djúpavatnsleið og um Helguvík.
Sautján keppnislið hafa verið skráð til leiks í Nesbyggðarrallinu sem haldið er af Akstursíþróttafélagi Suðurnesja.
Hér er handbók um rallið sem sýnir þær leiðir sem ekið verður og tímasetningar fyrir hverja leið og þær lokanir sem fylgja.
Ljósmynd af vef aifs.is