Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ragnheiður Sara Evrópumeistari í crossfit!
Sara í harðri baráttu við Annie Mist Þórisdóttur um helgina -mynd: crossfit.games.com
Sunnudagur 31. maí 2015 kl. 16:29

Ragnheiður Sara Evrópumeistari í crossfit!

4 íslenskar konur fara á heimsleikana

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir varð í dag Evrópumeistari í crossfit eftir að hafa átt frábæran lokadag í Ballerup arena í Kaupmannahöfn þar sem að hún stakk helstu keppinauta sína af í síðustu tveimur greinum mótsins. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ragnheiður Sara var í þriðja sæti fyrir lokadaginn, aðeins stigi á eftir Annie Mist Þórisdóttur og Katrínu Tönju Davíðsdóttur, og ljóst að lokadagurinn yrði æsispennandi. Í raun varð svo lokadagurinn aldrei spennandi þar sem að Sara hreinlega skipti yfir í gír sem að keppinautar hennar virtust ekki búa yfir og setti stúlkan met í næstsíðustu grein mótsins og kom í mark langt á undan næstu stúlkum.

Þar með var ljóst að farmiði á heimsleikana væri kominn í hús þar sem að stigamunurinn á henni og þeim sem að voru í sætum 5-6 var of mikill til að brúa. Spurningin um það hvar Sara myndi enda í röðinni var þó enn ósvarað en síðasta grein mótsins var að hennar sögn í miklu uppáhaldi hjá henni og hlakkaði hún til að takast á við hana.

Sara hafnaði svo í 2. sæti í síðustu greininni sem að gerði það að verkum að hún vann glæsilegan heildarsigur á mótinu og þar með Evrópumeistaratitilinn, heilum 38 stigum á undan Katrínu Tönju Davíðsdóttur sem hafnaði í 2. sæti. Annie Mist Þórisdóttir endaði í 3. sæti, Norðmaðurinn Kristin Holte í því fjórða og Þuríður Erla Helgadóttir í því fimmta. Allar fimm stúlkurnar tryggðu sér farmiða á heimsleikana sem fara fram í Carson í Kaliforníu seinna í sumar en samkeppnin um þátttökurétt á mótinu er gríðarlega hörð og að sögn spekinga er hvergi harðari keppni en í Evrópuriðlinum þar sem að Íslendingar eiga nú fjóra af fimm fulltrúum í kvennaflokki sem er ótrúlegur árangur.

Ragnheiður Sara var yfirveguð þegar hún tók við Evrópumeistaratitlinum en allt ætlaði um koll að keyra í áhorfendastæðunum þegar úrslitin voru ljós og mátti vel heyra í stuðningsliði hennar sem var áberandi og lét vel í sér heyra allan tímann svo það skilaði sér vel í gegnum viðtækin heima í stofu.

Sara, ásamt stuðningsliði sínu eftir verðlaunaafhendingu í dag

Víkurfréttir óska Ragnheiði Söru innilega til hamingju með þennan magnaða árangur og verður spennandi að fylgjast með framgangi hennar á heimsleikunum síðar í sumar.