Rafn og Snorri þjálfa Njarðvík
Rafn Markús Vilbergsson og Snorri Már Jónsson hafa samið við knattspyrnudeild Njarðvíkur um þjálfun á meistaraflokksliði karla næsta tímabil. Þeir skrifuðu undir tveggja ára samning þess efnis á dögunum. Njarðvík samdi einnig til tveggja ára við þá Andra Fannar Freysson, Stefán Birgi Jóhannesson og Styrmi Gauta Fjeldsted en allir hafa þeir gengt lykilhlutverki í liðinu undanfarin ár.
Rafn Markús á að baki 179 leiki og 53 skoruð mörk með Njarðvíkingum og gegndi auk þess starfi yfirþjálfara yngri flokka hjá félaginu. Rafn þjálfaði meistaraflokkslið Víðis í Garði í tvö ár og kom aftur til Njarðvíkur í fyrra og var í leikmannahópi liðsins auk þess að þjálfa síðasta mánuðinn.
Snorri Már spilaði einnig með Njarðvíkingum og á að baki 172 leiki og 24 mörk. Hann hóf þjálfaraferil sinn sem þjálfari 2. flokks Njarðvíkur og hefur síðan þá þjálfað m.a. meistaraflokk Reynis Sandgerði og meistaraflokk kvenna í Keflavík.
Njarðvík hefur einnig samið við Óðinn Jóhannsson til tveggja ára sem er að stíga upp úr 2. flokki. Markvörðurinn og aðstoðarþjálfari síðustu ára, Ómar Jóhannsson hefur ákveðið að sigla á önnur mið og verður ekki með Njarðvíkingum á næsta tímabili.