Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Qatar og Kína á sama árinu
Metnaðarfull: Sunneva á sér háleit markmið en hana langar til þess að stunda nám í Bandaríkjunum og synda á Ólympíuleikum.
Laugardagur 29. nóvember 2014 kl. 09:13

Qatar og Kína á sama árinu

-Sunneva Dögg er sundkona á uppleið

Sunneva Dögg Friðriksdóttir og Kristófer Sigurðsson eru fyrstu sundmenn ÍRB um nokkurt skeið til þess að ná yfir 750 FINA stigum en þau hafa bæði unnið til fjölda Íslandsmeistaratitla á undanförnum árum. Bæði skipa þau sér í flokk með efnilegra sundfólki landsins, jafnvel á Norðurlöndum eða Evrópu ef út í það er farið. Þau halda til Qatar í Mið austurlöndum í vikulok þar sem heimsmeistaramótið í 25 metra laug fer fram.

Sunneva, sem er 15 ára, er of ung til þess að keppa á mótinu en mun fara til Qatar á sérstökum styrk á vegum FINA og stunda æfingar meðal þeirra bestu í heiminum. Hún segist vera orðin frekar spennt enda um ansi framandi slóðir að ræða. Sunneva hefur þó reynslu í þeim efnum þar sem hún tók þátt á Ólympíuleikum æskunnar í Kína í sumar með liði Íslands. Þar hlotnaðist henni sá heiður að vera fánaberi liðsins. „Það var mjög mikið öðruvísi í Kína. Ég býst við að upplifa eitthvað svipað í Qatar. Það er varla hægt að finna lýsingarorð til að lýsa reynslunni í Kína. Það var svakaleg upplifun að sjá topp sundmenn á heimsvísu.“ Sunneva segist hafa lært talsvert af því að fylgjast með æfingum og venjum þeirra bestu í Kína. „Maður fær að ferðast mikið ef vel gengur. Það er mjög hvetjandi til þess að ferðast víða,“ segir Sunneva sem núna stefnir nú á að komast á heimsmeistaramót unglinga sem haldið er í Singapore. „Skrýtnu löndin sem fáir heimsækja heilla sérstaklega.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sunneva er komin með 754 FINA stig, en þau stig eru notuð sem mælikvarði á styrkleika sundmanna á heimsvísu. Hún er ásamt Kristófer eini sundmaður félagsins með yfir 750 stig að svo stöddu. Sunneva er aðeins önnur ÍRB kvenna til þess að ná þessum áfanga, en ÍRB hefur átt alls átta sundmenn sem hafa náð þessum stigafjölda, þeirra á meðal er Erla Dögg Haraldsdóttir Ólympíufari og fyrrum Íþróttamaður Reykjanesbæjar. „Erla Dögg hefur alltaf verið mín fyrirmynd, alveg síðan ég man eftir mér. Hún hefur aðstoðað mig mikið og það er gott að leita til hennar,“ segir Sunneva. Það hefur verið lengi verið markmið hennar að ná yfir 750 FINA stig. Hún sér fyrir sér að fara út í háskóla erlendis þar sem hægt væri að nota sundið til þess að fá skólastyrk. „Ég ætla svo að reyna að komast á Ólympíuleikana í Ríó árið 2016.“

Sagði skilið við sælgæti

Hvað varðar mataræði samhliða æfingum þá segir Sunneva að hún borði nánast hvað sem er, enda þurfi hún á mikilli orku að halda við æfingar. Hún hefur þó sagt skilið við sælgæti að svo stöddu. „Ég ákvað svo sem ekki að hætta borða nammi fyrir sundið en manni líður bara miklu betur þegar maður borðar hollt.“ Sunneva hefur æft sund frá fimm ára aldri og hefur því æft í tíu ár. Hún æfir mikið og segir það vera lítið mál að púsla öllu saman með góðu skipulagi. „Mér hefur alltaf fundist gaman í sundi. Það er bara númer 1, 2 og 3 að hafa gaman af þessu, án þess nær maður litlum árangri. Þetta er það erfið íþrótt.“