Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Pílukast er tilvalið fjölskyldusport
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 28. október 2023 kl. 06:00

Pílukast er tilvalið fjölskyldusport

– segja hjónin Danni og Kitta sem stunda pílukast af krafti með börnunum sínum.

Pílukast hefur rutt sér verulega til rúms síðustu misserin og stöðugt fleiri leggja stund á þessa skemmtilegu íþrótt. Víkurfréttir hittu fjölskyldu í Reykjanesbæ sem er á kafi í pílunni og þau hafa náð ótrúlegri færni á skömmum tíma. Hjónin Daníel Þorgeirsson og Kitta Einarsdóttir keppa bæði í pílu og það sama gera börnin þeirra, Árni Ágúst og Birna Rós.

„Dóttir okkar hefur ekki verið að koma í mót með okkur, miðjan okkar, en Árni og Birna eru á kafi í þessu með okkur,“ segir Kitta og Danni bætir við að hún sé nú alveg að koma í skúrinn með þeim.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Hún hefur einu sinni mætt á páskamót, þá spilaði hún með ömmu sinni,“ segir Kitta. „Annars er hún ekkert eins og við.“

Kitta, Árni og Birna eru öll í Pílufélagi Reykjanesbæjar en Danni er í Pílufélagi Grindavíkur.

„Það vildi bara svo til að vinur minn sem ég spilaði með á Íslandsmótinu í tvímenning, við lentum í þriðja sæti. Hann vantaði einhvern til að spila með sér og ég var ekki í neinu félagi, svo hann skráði mig bara í Grindavík. Maður þarf að vera í félagi til að keppa í þessum mótum. Ég færi mig svo í pílufélagið hérna þegar það rennur út.“

Danni, Árni og Kitta hlaðin verðlaunum.

Hvernig stóð á því að þið fóruð að æfa pílu?

„Covid,“ segja þau í kór og Kitta heldur áfram: „Það var ekkert að gera, maður var bara innilokaður og það vildi svo til að Danni fór upp í Kompu þar sem hann fann eitthvað eldgamalt píluspjald og henti því í skúrinn. Hann kom okkur á bragðið og það var „no turning back“.

Árni byrjaði líka að fikta við píluna en hann fylgdist með heimsmeistaramótinu í sjónvarpinu. „Þau fengu öll Covid og ég vildi ekki vera með þeim,“ segir hann. „Ég fór út í bílskúr í einangrun og var þar í viku. Það eina sem ég var að gera var að horfa á pílu og ákvað að prófa að kasta í spjaldið – og var að gera það í sjö daga samfleytt.“

„Og varð alveg fáránlega góður,“ skýtur Danni inn í og hlær.

Mikilvægt að keppa gegn sterkari spilurum

„Árni dró mig á fyrsta mótið, sem var Don Gústi mótið sem er haldið í Grindavík. Ég hélt að ég væri að fara að spila við konur en svo var þetta blandað mót,“ segir Kitta. „Ég var bara að spila við alla, lenti í svakalega erfiðum riðli en komst í A-úrslit. Það var eiginlega ekkert aftur snúið eftir það.“

Danni segir að þetta hafi verið um jólin 2021 og þau liggur við aldrei snert pílu áður.

Kitta kastar í mark.

Það er nú gaman að öll fjölskyldan getur tekið þátt í þessu saman.

„Honum finnst það ekki,“ segir Kitta og bendir á eiginmanninn. „Hann er svo tapsár,“ og allir hlæja.

„Annars verður maður að spila við sterkari spilara en mann sjálfan til að ná einhverjum árangri,“ bætir hún við. „Ef ég hefði ekki haft hann [Árna] til að keppa við þá hugsa ég að ég væri ekki búin að ná þeim árangri sem ég hef náð. Þú verður bara að halda áfram að spila við okkur – þú verður bara betri,“ segir Kitta og beinir orðum sínum að Danna en Kitta var valin í kvennalandsliðið mjög fljótlega eftir að hún byrjaði að keppa.

Það er augljóst að fjölskyldan hefur gaman af þessu og þau eru óspör á að skjóta hvert á annað.

„Ég á mína góðu og mína lélegu leiki,“ segir Danni.

Birna er nýkomin úr keppnisferð með U18 landsliði Íslands og keppir í úrvalsdeildinni þótt hún sé rétt að verða sextán ára.

Birna Rós var að keppa í Austurríki fyrir ekki svo löngu síðan þar sem hún tók þátt í Evrópumóti með U18 landsliði Íslands. Það er í fyrsta sinn sem Ísland sendir U18 kvennalið og þær stóðu sig hrikalega vel, höfnuðu í sjöunda sæti.

„Hún var líka í sjónvarpinu í síðustu viku,“ segir mamman stolt. „Hún var að keppa í úrvalsdeildinni í pílukasti en hún tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni með því að vinna mömmu sína á Íslandsmóti. Þá endaði hún í þriðja til fjórða sæti í fullorðinsmóti, hrikalega vel gert, og Árni var í úrvalsdeildinni í fyrra,“„eftir að hafa verið í pílu í bara fimm mánuði,“ segir hann. „Ég var valinn inn í úrvalsdeildina og spilaði við þrjá Íslandsmeistara. Ég fékk þá alla í riðil en náði að stríða þeim aðeins, fór í oddaleik á móti Matta [Matthías Örn Friðriksson úr Grindavík] og tók hæsta útskotið, sem er ennþá í úrvalsdeildinni – 132 á rauðu búlli [miðjan á spjaldinu]. Þeir unnu mig samt.“

Árni Ágúst byrjaði í pílu þegar hann var í einangrun fyrir Covid.

Mikil mótagleði

Þau segja að mikið sé um mót í pílukastinu, fimm Íslandsmót á ári og þar fyrir utan eru flestir klúbbar með opin mót reglulega.

„Það eru ÍPS-mót í hverjum mánuði,“ segir Árni. „Það eru mót sem eru á vegum Pílusambandsins. Svo eru klúbbamót í hverri viku, næstum því á hverjum degi.“

„Á fimmtudögum, föstudögum og laugardögum er alltaf eitthvað um að vera,“ segir Danni. „Annað hvort hérna eða í Hafnarfirði.“ „Svo eru það liðakeppnirnar,“ bætir Kitta við.

Sú mynd sem margir draga upp af píluspilurum er að  áfengi sé gjarnan haft við hönd í mótum. Þau segja að áfengi sé bannað á keppnisstað í öllum ÍPS-mótum þó það sé stundum verið að fá sér bjór hjá klúbbunum. „Það er verið að sporna við þessu og þetta er á undanhaldi,“ segja þau.

Íslenska pílusambandið hefur verið samþykkt inn í Íþróttasamband Íslands og verður því verður því fljótlega viðurkennt aðildarfélag innan ÍSÍ.

Kitta og Danni á sýningu með Boxerana sína.

Líka á kafi í hundunum

Fjölskyldan á sér fleiri en eitt sameiginlegt áhugamál en Kitta og Danni eru líka með hundaræktun, Ice Legend Ræktun, þar sem þau leggja aðaáherslu á ræktun hunda af tegundinni Boxer en þau hafa líka verið með Miniature Pinscher. Það er því nóg að gera hjá hjónunum sem eru bæði í fullri vinnu samhliða þessu tvennu.

„Það er líka talsverð vinna í kringum hundaræktunina, hundasýningar og svoleiðis. Ég vil fá ræktunardóma fyrir öll dýrin mín áður en ég fer út í ræktunina. Við ætlum nú að hætta með Pinscherinn og einbeita okkur að Boxernum,“ segir Kitta en þau eru með fjóra boxera á heimilinu, þrjár tíkur og einn rakka.

„Það er annar rakki á leiðinni til okkar,“ segir Danni. „Við förum til Serbíu í byrjun næsta mánaðar að sækja hann. Þetta er sex mánaða rakki sem á að taka við af hinum, hann er orðinn svo gamall.“

Boxerarnir eru svolítið ógnvekjandi í útliti, stórir og sterklegir með flatt trýni. „Þetta eru samt algerir trúðar. Ofboðslega ljúfir og góðir fjölskylduhundar,“ segja þau bæði. „Ég hugsa að hann myndi taka á móti innbrotsþjófi með bolann í kjaftinum – tilbúinn að leik,“ segir Kitta að lokum.

Kitta er kappsöm þegar kemur að pílukasti.