Petrúnella: Kominn tími á að snúa við blaðinu á útivelli
Grindvíkingurinn Petrúnella Skúladóttir var valin í úrvalslið Iceland Express deildar kvenna í körfuknattleik í dag fyrir umferðir 18-24 í deildarkeppninni. Petrúnella hefur leikið vel fyrir Grindvíkinga að undanförnu og hefur gert 8,1 stig að meðaltali í leik í síðasta þriðjungi mótsins. Grindavík mætir KR í fyrstu umferð úrslitakeppninnar þar sem KR-ingar verða með heimaleikjaréttinn en liðin mætast á laugardag í fyrsta leiknum í DHL-Höllinni í Vesturbænum.
,,Mér líst vel á rimmurnar gegn KR og hlakka mikið til því nú er kominn tími til að snúa við blaðinu á útivelli og sýna hvers megnugar við erum,” sagði Petrúnella í samtali við Víkurfréttir í dag en Grindvíkingum hefur ekki gengið sem best á útivöllum það sem af er leiktíðinni.
,,Þessi frammistaða okkar á útivelli er bara komin á sálina hjá okkur því margir hafa verið að benda á þetta í okkar leik en við verðum bara að sýna öllum að við séum færar um að laga stöðu okkar á útivöllum,” sagði Petrúnella sem í upphafi leiktíðar var mikið í teignum hjá Grindavík sem kraftframherji en hefur að undanförnu verið að leika aðeins fyrir utan teiginn og hefur sýnt af sér mikla færni í þriggja stiga skotunum. Hverju sætir?
,,Ég er farin að spila meira fyrir utan núna en ég gerði í upphafi tímabils og hika ekki við að taka opnu skotin þó svo ég hafi enn stöðu kraftframherja í liðinu. Ef við erum ekki að setja skotin okkar fyrir utan er gott að vita af Tiffany í teignum því hún er líka dugleg við að koma boltanum aftur út til okkar,” sagði Petrúnella.
Grindvíkingar höfðu góðan heimasigur gegn KR í síðasta deildarleik Íslandsmótsins en þrátt fyrir sigurinn hafði KR mikla yfirburði í frákastabaráttunni. ,,Þetta snýst allt um góða vörn og að taka fráköstin því þau eru svo mikilvæg en annars eru allir heilir og klárir í slaginn og mikil tilhlökkun í okkar herbúðum,” sagði Petrúnella en við hverju býst hún í hinu undanúrslitaeinvíginu þar sem mætast Keflavík og Haukar?
,,Það getur allt gerst, Haukar hafa fengið mjög sterkan erlendan leikmann sem getur fleytt liðinu langt og það er núna bara nokkuð óvíst hvort liðið fari áfram úr þeirri rimmu,” sagði Petrúnella en hvað sér hún gerst í barningnum gegn KR?
,,Ef við spilum okkar leik þá komumst við áfram en ef við förum að slaka á og gefa fráköstin þá er ekki von á góðu,” sagði Petrúnella og þvertók fyrir að Lýsingarbikartitillinn hefði satt hungur Grindavíkurkvenna. ,,Sá titill gerði okkur bara hungraðari í að landa Íslandsmeistaratitlinum.”
VF-Mynd/ [email protected]– Petrúnella Skúladóttir með viðurkenningargripinn sem leikmaður í úrvalsliði umferða 18-24.