PERRY LATUR OG PÖBBAGLAÐUR
Bandaríkjamaðurinn Purnell Perry var sendur heim síðasta fimmtudag eftir að hafa leitt Njarðvíkinga og ÍRB í stigaskorun og fráköstum það sem af er tímabilinu. Skv. heimildum blaðsins, úr herbúðum Njarðvíkinga, bar Perry jafnmikið af í leti og í líkamsburðum og hann þótti rammur að afli. Þá gekk honum afar illa að ná tökum á leikskipulagi liðsins.Friðrik Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkinga, sagði það alltaf erfiða ákvörðun að láta leikmann fara.“Purnell Perry er mjög svo hæfileikaríkur leikmaður sem hann sýndi svona við og við. Hann tók nánast aldrei á á æfingum né í leikjum hjá okkur í UMFN og það var eitthvað sem ekki var hægt að sættast á. Það var margbúið að tala við hann en hann vissi alltaf betur en aðrir í kringum hann og var mórallinn í kringum hann ekki góður. Hann virti reglur félagsins að vettugi og sást oft til hans á öldurhúsum þó leikur væri næsta dag. Því miður er ekki hægt að nota nýja manninn í riðlakeppninni en hann verður löglegur með okkur að henni lokinni”