Par spilamennska Guðmundar Rúnars dugði ekki í Leirunni
Alfreð Brynjar Kristinsson úr GKG var ekkert að grínast í Leirunni í gær þegar hann mætti í þriðja mótið á Gull vormótaröð Golfklúbbs Suðurnesja. Hann lék 18 holurnar á 6 undir pari, sex betur en klúbbmeistari GS, Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, og vann örugglega án forgjafar og var einnig á toppnum í punktakeppninni.
Veðrið var fínt í Leirunni og völlurinn stendur fyrir sínu nú rétt fyrir sumardaginn fyrsta. Alfreð Brynjar lék fyrri 9 holurnar á 4 höggum undir pari og þann seinni á tveimur undir sem jafnan er léttari. Óhætt er að segja að vallarmetið hafi verið komið í hættu en það er 63 högg á klúbbteigum. Alfreð lét það vera að þessu sinni. Guðmundur Rúnar Hallgrímsson lék á pari og varð annar en þriðji var annar heimamaður, Óskar Halldórsson, á 74 höggum.
Í punktakeppninni var Alfreð Brynjar efstur ásamt fyrrverandi Sandgerðingnum, Sigurði Óla Sumarliðasyni úr GOB með 40 punkta. Þriðji varð Ásgeir Ingvarsson GKG með 39 og síðan komu þeir Óskar Halldórsson GS, Lars Erik Johansen GK, Gunnlaugur K. Unnarsson GS, Valur Rúnar Ármannsson GSG og Helgi Róbert Þórisson GKG, allir með 38 punkta en tveir fyrstnefndu voru með betri árangur á seinni níu og það telur til verðlauna.
Þessar myndir voru teknar í Leirunni í mótinu. Kylfingar eru sprækir að vori og bíða spenntir eftir sumri.
-
-
-