Pálmi Rafn eltir atvinnumannadrauminn hjá Úlfunum
„Mér hefur gengið ágætlega en þetta er búið að vera stíft prógramm og við fengum fyrstu fríhelgina um síðustu helgi. Við höfum æft mjög mikið síðustu sex vikurnar, oft tvisvar á dag,“ segir njarðvíski markvörðurinn Pálmi Rafn Arinbjörnsson sem er á mála hjá enska úrvalsdeildarliðin Úlfunum.
Pálmi gerði samning við Úlfana í lok nóvember 2019, þá aðeins fimmtán ára gamall og hefur nú í haust æft með átján ára liði félagsins. Hann segir að það sé samkeppni um markvarðastöðuna eins og fleiri stöður í liðinu. Það sé í góðu lagi og haldi honum við efnið. „Ég spilaði ekki fyrstu þrjá leikina núna í haust en ég hef að mínu mati staðið mig vel í undirbúningnum fyrir tímabilið. Þjálfararnir sögðu að þeir væru að dreifa leikjunum á báða markverðina þannig að ég held bara áfram að æfa vel. Ég spilaði í vináttuleik síðasta fimmtudag gegn Huddersfield og hélt hreinu og það var gott. Næsta laugardag leikum við gegn Derby.“
Pálmi Rafn þurfti að glíma við meiðsli þegar hann kom til liðsins í fyrravetur en náði sér upp úr þeim. Þá þurfti hann að bíða eftir leikleyfi fyrstu vikurnar. „Þetta er mjög skemmtilegt og við mamma erum mjög ánægð hér í Wolverhamton. Við búum hér í um hálftíma fjarlægð frá stórborginni Birmingham.“
Skólabækurnar ekki langt undan
Með knattspyrnunni stundar Pálmi nám og hann segir að það gangi vel. Námið sækir hann bæði í húsnæði við leikvang Úlfanna og svo hefur það líka verið á netinu, á tímum Covid-19. Veiran er líka þarna úti og okkar maður þarf, eins og fleiri, að huga að því.
„Þetta er skrýtið. Við höfum klætt okkur í rútunni og það er bannað að fara í sturtu eftir leik en það er í góðu lagi. Þetta venst þó maður kysi að hafa þetta öðruvísi,“ sagði Pálmi Rafn.
Pálmi Rafn hafði fyrir utanferð til Úlfanna stundað knattspyrnu hjá Njarðvík frá því hann var ungur strákur og hefur síðustu ár verið valinn í yngri landslið Íslands, hann á að baki ellefu landsleiki með yngri landsliðum Íslands. Hann hefur mest æft með U18 liðinu en fljótlega eftir að hann kom æfði hann líka með U16 og keppti með því. Í spjalli við Pálma snemma á þessu ári sagðist hann hafa fengið að fara á nokkrar æfingar með U23 og það væri skemmtilegt því þar væru leikmenn sem æfðu og kepptu með úrvalsdeildarliði Wolves.
Wolves er stór klúbbur og liðinu hefur gengið vel í efstu deild síðustu tvö árin og stóri draumurinn segir Pálmi að komast í úrvalsdeildarliðið hjá þeim. Einnig vil ég halda áfram að vera valinn í landsliðshópa og komast í A-landsliðið,“ sagði Pálmi Rafn sem þakkar mest markvarðaþjálfara sínum, Sævari Júlíussyni, fyrir að hafa haft trú á sér.
„Atvinnumennska var fjarlægur draumur þá en Sævar sá efnið í mér og tók mig í þjálfun. Ég lærði eitthvað nýtt í hvert einasta skipti sem ég hitti hann, öll sú tækni sem ég kann í dag er frá Sævari. Ég væri ekki þar sem ég er í dag án Sævars, það er bara þannig. Ég get svo sannarlega sagt að tíminn minn hjá Njarðvík hefur verið fullur af áskorunum, að sjálfsögðu hefur gengið upp og niður eins og sagt er en það er bara partur af þessu öllu. Ég get alla vega sagt að ég er stoltur Njarðvíkingur,“ sagði Pálmi Rafn.
Pálmi í „aksjón“ með Úlfunum í Englandi.
Pálmi með Sævari Júlíussyni, markvarðaþjálfara en hann þakkar honum hvert hann er kominn í dag.
Pálmi og Ingvar Jónsson, atvinnumaður úr Njarðvík í Reykjaneshöllinni.
Pálmi eftir undirskrift við Úlfana haustið 2019.