Þriðjudagur 20. mars 2007 kl. 11:55
Páll Kristinsson verður klár í Flake í kvöld
Grindavík og Skallagrímur mætast í oddaleik 8-liða úrslitanna í úrslitakeppni Iceland Express deild karla í kvöld. Leikurinn hefst kl. 20:00 og er í beinni útsendingu hjá SÝN. Liðin hafa nú unnið sinn hvorn útileikinn og mun oddaleikurinn í kvöld skera úr um það hvort liðið kemst áfram í undanúrslitin. Í boði verða sætaferðir fyrir stuðningsmenn Grindavíkur í dag upp í Borgarnes og mun rútan halda af stað kl. 17:30 frá íþróttahúsinu í Grindavík.
Páll Kristinsson hefur síðustu tvo leiki gegn Skallagrím fengið það vandasama verkefni að hafa gætur á Darrell Flake, miðherja Skallagríms, og á því verður engin undantekning í kvöld. Páll segist klár í slaginn og að einbeitingin verði að vera í lagi.
,,Það verður mitt hlutverk í kvöld að hafa gætur á Flake og maður verður bara að vera klár í það. Þetta snýst um að vera klár í slaginn og hafa einbeitinguna í lagi. Ég þarf bara að vera á tánum í kvöld og reiðubúinn til þess að taka á móti Flake en ég er ekkert að gera þetta í fyrsta skipti,” sagði Páll í samtali við Víkurfréttir.
,,Leikurinn í kvöld snýst um hvort liðið vilji þetta meira. Mér finnst eins og að við í Grindavíkurliðinu séum að byrja upp á nýtt því okkar leikur hefur verið að smella saman undanfarið,” sagði Páll en eftir að þeir gulu sendu Calvin Clemmons heim hafa þeir gengið í gegnum endurnýjun lífdaga eftir miður gott gengi í deildarkeppninni í vetur.
Bæði Skallagrímur og Grindavík hafa ekki enn unnið leik á heimavelli í úrslitakeppninni en leikur kvöldsins fer fram í Borgarnesi. Það lið sem hefur sigur í leiknum í kvöld heldur áfram í undanúrslitin en það lið sem tapar fer í sumarfrí.
[email protected]