Páll Kristinsson meiddur og leikur ekki gegn Keflavík á morgun
Páll Kristinsson, framherjinn knái í liði Njarðvíkinga, mun ekki leika með liðinu gegn Keflavík á morgun í 12. umferð Intersportdeildarinnar í körfuknattleik. Páll lenti í samstuði við Friðrik Stefánsson á æfingu liðsins í gær sem varð til þess að viðbein fór úr lið og við það skaddaðist liðband í hægri öxlinni. Friðrik Ragnarsson þjálfari Njarðvíkinga sagði í samtali við Víkurfréttir að Páll myndi ekki leika á morgun en þeir væru þó enn að gæla við það að hann yrði tilbúinn á föstudaginn þegar liðin mætast í bikarnum."Læknarnir sögðu að Páll yrði frá í nokkra daga sökum meiðslanna og að það gæti jafnvel tekið nokkra mánuði að fá fullan bata", sagði Friðrik. Hann sagði enn fremur að Páll væri gríðarlega mikilvægur hlekkur í liðinu og átti hann að hafa gætur á Damon Johnson í leiknum. "Páll er stór, sterkur og fljótur leikmaður og hefur hentað vel á Damon í leikjum liðanna og því er auðvitað slæmt að missa hann en við finnum eitthvað ráð við því. Mér líst samt sem áður mjög vel á leikinn og munum við fara í þennan leik til að vinna", sagði Friðrik að lokum.