Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Páll Axel og Jovana íþróttafólk Grindavíkur
Föstudagur 2. janúar 2009 kl. 11:10

Páll Axel og Jovana íþróttafólk Grindavíkur




Þriðja árið í röð og í fimmta skipti á 6 árum varð körfuknattleiksmaðurinn Páll Axel Vilbergsson fyrir valinu sem íþróttamaður Grindavíkur. Kjörið var tilkynnt á gamlársdag. Þá var í fyrsta skipti kosið um íþróttakonu Grindavíkur.  Körfuknattleikskonan Jovana Lilja Stefánsdóttir fyrirliði meistaraflokks kvenna og landsliðskona hlaut þá nafnbót og eru báðir aðilar vel að titlunum komnir.



Íþróttamaður Grindavíkur árið 2008 er Páll Axel Vilbergsson.

Á síðasta tímabili var hann valinn besti leikmaður Grindavíkurliðsins á lokahófi körfuknattleiksdeildarinnar. Var hann fyrirliði liðsins og leiddi liðið til undanúrslita í bæði Íslandsmótinu og Bikarkeppni. Auk þess var hann valinn í úrvalslið deildarinnar á lokahófi KKÍ.

Í sumar var hann einn af lykilleikmönnum íslenska landsliðsins í körfuknattleik og var annar stigahæsti leikmaður landsliðsins í landsleikjum ársins.

Nú í vetur er Páll Axel annar stigahæsti leikmaður Íslandsmótsins og stigahæsti leikmaður Grindavíkurliðsins með 25,6 stig að meðaltali í leik. Þegar lagðir eru saman allir tölfræðiþættir leiksins þá er Páll Axel einnig annar hæsti í framlagsstigum. Grindavíkurliðið hefur hafið þetta leiktímabil frábærlega og hefur aðeins tapað einum leik í deildinni í vetur.

Páll Axel hefur verið yfirburðaleikmaður í Grindavíkurliðinu í mörg ár, fastur maður í íslenska landsliðinu og á svo sannarlega skilið nafnbótina Íþróttamaður Grindavíkur 2008.


Íþróttakona Grindavíkur árið 2008 er Jovana Lilja Stefánsdóttir.

Hún spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki árið 1999-2000 og hefur hlutverk hennar innan liðsins aukist jafnt og þétt síðan þá og er hún í dag lykilleikmaður og fyrirliði Grindavíkurliðsins í úrvalsdeild kvenna. Spilaði hún mjög vel á síðasta tímabili og var meðal annars valin í úrvalsslið Iceland Express deildarinnar í 10-17 umferð og var eini leikmaður liðsins sem afrekaði það fyrir utan erlenda leikmenn. Liðið náði frábærum árangri á síðasta tímabili þar sem þær komust í undanúrslit íslandsmótsins og voru hársbreidd frá því að komast í úrslitaleikinn. Einnig unnu þær glæstan sigur í bikarkeppninni og er það í fyrsta sinn í sögu Grindavíkur að meistaraflokkur kvenna verður Bikarmeistari.

Í sumar var Jovana valin í íslenska landsliðið og spilaði 3 leiki. Nú í vetur hefur hún tekið á sig aukna ábyrgð innan liðsins sem spilar án erlendra leikmanna og er liðið eins og stendur í harðri baráttu um að vera í efri hluta deildarinnar.

Jovana er góð fyrirmynd innan sem utan vallar og vel að heiðrinum komin að vera valin íþróttakona Grindavíkur 2008.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þetta kemur fram á heimasíðu Grindavíkur.