Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Páll Axel með stórleik í Grindavíkursigri
Sunnudagur 4. desember 2005 kl. 22:55

Páll Axel með stórleik í Grindavíkursigri

Grindvíkingar urðu í kvöld fyrstir liða til þess að leggja Njarðvíkinga að velli í Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Framlengja þurfti leikinn sem var æsispennandi allan tímann. Lokatölur leiksins voru 105-106 Grindavík í vil en staðan að loknum venjulegum leiktíma var 94-94. Helgi Jónas Guðfinnsson var á ný í leikmannahópi Grindavíkur en það er mikill styrkur fyrir Grindvíkinga að fá Helga aftur inn í liðið.

Njarðvíkingar opnuðu leikinn með þriggja stiga körfu frá Brenton Birmingham og voru sterkari aðilinn í fyrsta leikhluta. Heimamenn komust snemma í 12-4 og lauk leikhlutanum í stöðunni 25-16.

Annar leikhluti líður mönnum seint úr minni en þá settu bæði lið þvílíka skotsýningu á laggirnar. Á fimm mínútna leikkafla náðu Grindvíkingar að jafna leikinn í stöðuna 34-34 og komust svo yfir 35-42 þar sem þeir gerðu 20 stig á móti 3 frá Njarðvíkingum. Voru bæði lið að hitta einstaklega vel fyrir utan þriggja stiga línuna og þá sér í lagi Grindvíkingar með Pál Axel Vilbergsson í broddi fylkingar. Meira að segja stóri strákurinn, Egill Jónasson, lét sitt ekki eftir liggja á þriggja stiga línunni og minnkaði muninn fyrir Njarðvík í 42-45. Öðrum leikhluta lauk svo 49-54 fyrir Grindavík og Njarðvíkurvörnin sterka ekki að virka sem skyldi.

Páll Axel var kominn með 21 stig í fyrri hálfleik og Jeremiah Johnson 19. Brenton Birmingham var stigahæstur Njarðvíkinga í hálfleik með 15 stig og Friðrik Stefánsson 14.

Heimamenn í Njarðvík komu ákveðnari til seinni hálfleiks en Friðrik Stefánsson fékk sína fjórðu villu þegar 6:34 mínútur voru til loka þriðja leikhluta. Þegar tæpar fjórar mínútur voru til loka leikhlutans komust Njarðvíkingar yfir 67-64 en Grindvíkingar jöfnuðu leikinn í 69-69 með þriggja stiga körfu frá Þorleifi Ólafssyni en hann átti ljómandi fínan leik fyrir Grindavík. Lokatölur eftir þriðja leikhluta, 76-74, Njarðvík í vil.

Jeremiah Johnson opnaði fjórða leikhluta með því að jafna leikinn í 76-76 en Njarðvíkingar voru þó við stjórnvölin. Þegar tæpar 5 mínútur voru til leiksloka var staðan 86-86 og spennan yfirþyrmandi. Jeb Ivey gerði þá þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 89-86. Njarðvíkingar komust svo í 94-88 en Grindvíkingar náðu af harðfylgi að jafna leikinn í 94-94, Guðlaugur Eyjólfsson fékk svo færi á því að skora sigurkörfuna með þriggja stiga skoti um leið og flautan gall en það misfórst svo framlengja var leikinn.

Brenton Birmingham setti niður þrist strax í upphafi framlengingarinnar og staðan því 97-94 Njarðvík í vil. Þegar 1:48 mínútur voru til leiksloka fékk Guðmundur Jónsson sína fimmtu villu og varð frá að víkja í stöðunni 99 – 96 fyrir Njarðvík. Friðrik Stefánsson kom Njarðvíkingum í 102 – 98 þegar brotið var á honum í skoti en hann fór á vítalínuna í kjölfarið og skoraði úr vítinu.

Í næstu tveimur sóknum fóru Njarðvíkingar illa að ráði sínu, náðu ekki að skora í fyrri sókninni og strax á eftir setti Páll Axel niður þrist fyrir Grindavík og minnkaði muninn í 102-101 við mikinn fögnuð stuðningsmanna Grindavíkur. Í næstu sókn á eftir misfórst Njarðvíkingum að skora en Páll Axel setti enn á ný niður þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 102-104 Grindavík í vil. Þá tóku Njarðvíkingar leikhlé þegar um 15 sekúndur voru til leiksloka. Jeb Ivey átti svo möguleika á því að jafna metin en sniðskot hans vildi ekki ofan í, Grindvíkingar hirtu frákastið og fundu Pál Kristinsson frammi á leikvellinum og hann skoraði örugglega úr hraðaupphlaupinu, 106-102. Um 3 sekúndur voru til leiksloka þegar Brenton Birmingham setti niður þriggja stiga körfu nánast frá miðjum leikvellinum en það kom ekki að sök og 105-106 sigur Grindvíkinga í höfn.

VF-myndir/ JBO

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024