Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Páll Axel með 36 stig í Grindavíkursigri
Föstudagur 28. mars 2008 kl. 22:12

Páll Axel með 36 stig í Grindavíkursigri

Páll Axel Vilbergsson stóð að eins manns flugeldasýningu í fyrri hálfleik í Röstinni í kvöld þegar Grindvíkingar tók 1-0 forystu gegn Skallagrím í 8-liða úrslitum Iceland Express deildar karla í körfuknattleik. Páll Axel sallaði niður 36 stigum og tók 3 fráköst er Grindavík lagði Skallagrím 106-95.
 
Eftir magnaðan fyrri hálfleik gáfu heimamenn eftir í þeim síðari og náðu gestirnir úr Borgarnesi að minnka muninn mest niður í 3 stig en Grindvíkingar stóðust áhlaupið og náðu að tryggja sér sigurinn með þokkalegum endaspretti. Darrell Flake var atkvæðamestur í liði Skallagríms í kvöld með 29 stig og 13 fráköst.
 
Heimamenn pressuðu allan fyrri hálfleik og keyrðu vel upp völlinn í sókninni á meðan gestirnir virtust enn staddir í Hvalfirðinum. Í stöðunni 18-8 fyrir Grindavík ákváðu Borgnesingar að láta til sín taka og minnkuðu muninn í 18-16 en heimamenn gerðu næstu 7 stig og lauk leikhlutanum í stöðunni 25-16 og nokkuð farið að hitna undir Páli Axeli sem slúttaði fyrsta leikhluta með glæsilegri þriggja stiga flautukörfu sem sendi tóninn inn í annan leikhluta.
 
Til að senda gestunum enn frekar tóninn opnaði Páll Axel annan leikhluta eins og hann lauk þeim fyrsta með þriggja stiga körfu og þeir urðu þrír til viðbótar í leikhlutanum hjá þessum magnaða landsliðmanni. Í stöðunni 36-24 tókust heimamenn á flug og breyttu stöðunni í 47-24 og benti allt til þess að stórsigur væri í vændum.
 
Borgnesingar áttu engin svör í öðrum leikhluta og hefðu allt eins getað kastað inn handklæðinu miðað við yfirburði heimamanna. Staðan í leikhléi var 57-40 fyrir Grindavík og Páll Axel kominn með 24 stig hjá Grindavík og Adama Darboe með 12. Hjá Skallagrím voru þeir Darrell Flake og Milojica Zekovic báðir með 10 stig.
 
Allt annar bragur var á gestunum í síðari hálfleik sem leystu betur úr pressu heimamanna og tókst oft og tíðum að sprengja gat á vörnina hjá Grindavík með fínum gegnumbrotum. Pétur Már Sigurðsson minnkaði muninn niður í 10 stig með þriggja stiga körfu í þriðja leikhluta og staðan orðin 65-55. Allan Fall var allt annar maður á þessum tímapunkti í leiknum og stjórnaði Borgnesingum af kostgæfni og þeir Zeko og Flake reyndust heimamönnum erfiðir undir körfunni.
 
Áður en þriðji leikhluti var úti höfðu Borgnesingar komið muninum niður í 5 stig og staðan 76-71 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Mikil spenna einkenndi upphafið á fjórða leikhluta en Grindvíkingar náðu að halda gestunum fjarri. Töluverð orka fór í það hjá Skallagrím að ná muninum niður og það gerðu þeir vel en dapurt upphaf hjá þeim í leik kvöldsins reyndist þeim of dýrkeypt og lokatölurnar því 106-95 eins og áður greinir.
 
Páll Axel var vafalítið maður vallarins í kvöld með 36 stig en hann setti niður 5 af 11 þriggja stiga skotum sínum, tók 3 fráköst og var með eitt varið skot. Næstur honum var Adama Darboe með 17 stig og 11 stoðsendingar. Félagarnir Þorleifur Ólafsson (14 stig) og Helgi Jónas Guðfinnsson (13 stig) áttu einnig fína spretti og Jamaal Williams lauk leik með 14 stig og 7 fráköst en hann lenti í smávægilegum villuvandræðum undir lok leiks.
 
Darrell Flake var grimmur í síðari hálfleik í kvöld og var með 29 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar en næstur honum kom Zeko með 21 stig og 6 fráköst. Allan Fall var of lengi í gang fyrir Borgnesinga en hann átti flottan síðari hálfleik með 10 stig en norðlenska stálið Axel Kárason var með 12 stig og 5 stoðsendingar í kvöld.
 
Liðin mætast í sínum öðrum leik í Borgarnesi á sunnudag kl. 19:15 og takist Grindvíkingum að landa sigri í Fjósinu eru þeir komnir í undanúrslit. Ef Skallagrímur vinnur á sunnudag mætast liðin í oddaleik í Grindavík fimmtudaginn 3. apríl.
 
 
VF-Mynd/ [email protected]Grimmir Grindvíkingar hér á ferð!
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024