Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Páll Axel kveður fyrirliðabandið í Grindavík og semur við nýliða Skallagríms
Páll fagnaði mörgum sigrum í fyrra með Grindavík.
Föstudagur 27. júlí 2012 kl. 12:07

Páll Axel kveður fyrirliðabandið í Grindavík og semur við nýliða Skallagríms

Fyrirliði ríkjandi Íslandsmeistara Grindavíkur, Páll Axel Vilbergsson, hefur samið við nýliða Skallagríms og mun leika með Borgnesingum í Domino´s deildinni í vetur. Páll sagði í samtali við vefsíðuna Karfan.is að tími væri kominn á breytingar en stökkið er stórt, fyrirliðabandið verður eftir í Grindavík og Páll klæðist Skallagrímstreyjunni á nýjan leik sem nýliði.

Páll Axel hefur áður verið á mála hjá Borgnesingum en það var leiktíðina 1997-1998. Þá lék hann níu leiki með Skallagrím og skoraði þá 21,2 stig að meðaltali í leik. Aðspurður afhverju hann væri að yfirgefa Grindavík svaraði Páll: ,,Af hverju ekki!"
 
,,Það var bara kominn tími á breytingar, margir þættir spiluðu inní, bæði körfuboltalegir og ekki. Ég er að breyta um umhverfi, skipta um vinnu og fleira, bara aðeins að breyta til í öllu. Ég var opinn fyrir öllu og hefði geta farið hvert sem er. Það eru mörg ár síðan ég var í Borgarnesi en ég átti tal við nokkra góða menn og mér leist vel á þetta svo það var um að gera að slá til og ekki skemmir fyrir að þekkja aðeins til og eiga nokkra kunningja í Nesinu," sagði Páll sem vissulega færir nýliðunum reynslu í sarpinn en hann vonast til að koma með fleira að borðinu.
 
,,Maður er búinn að ganga í gegnum mikið, bæði súrt og sætt og Skallagrímur er enginn smáklúbbur svo ég er ekki að fara að kenna þeim neitt. Klúbbnum hefur kannski vantað smá reynslu og ég vona að ég geti komið með hana og eitthvað meira, það hlýtur að vera eitthvað eftir á tanknum."
 
En að semja við nýliða, væntanlega stór og mikil breyting frá því að vera fyrirliði Íslandsmeistara?
,,Ég er bara spenntur fyrir þessu. Það er uppsveifla í Borgarnesi enda mikið lagt í að koma liðinu upp í fyrra og hugur í mönnum. Vonandi er enn sami hugur nú þegar liðið er komið í úrvalsdeild en þetta er í fyrsta sinn sem ég er nýliði. Ég kom eiginlega inn í deildina sem gamall kall, byrja sem kempa og enda sem kempa. Ég fékk aldrei umtal sem ungur leikmaður þó ég sé svo sannarlega ungur í anda en nýliði engu að síður," sagði Páll sem flyst með fjölskyldu sína í Borgarnes. Hann segir allt opnið þegar umræðan um nýliða fer af stað.
 
,,Hvernig voru nýliðar Þórs á síðasta tímabili og hvernig voru nýliðar Vals. Tvær mjög ólíkar útgáfur sem sýna að nýliðasagan er upp og niður og hvernig aðrir sjá okkur skiptir ekki máli. Ég held þó að viðhorfið hjá mínu nýja félagi verði öðruvísi en í Grindavík. Í Grindavík er gengið að því vísu og í ágúst talað um hverja við fáum í úrslitakeppninni og mögulega hverjum maður myndi mæta í undanúrslitum. Oft er gengið að því sem vísu og kröfurnar þannig en kannski verður það öðruvísi í Borgarnesi. Við sem nýliðar munu vissulega þurfa að hafa meira fyrir hlutunum en ég er hvergi banginn. Ég set okkur ekki í neitt sæti, það er nú ennþá júlí og ég á enn eftir að mæta á æfingu," sagði Páll og kvaðst hæstánægður með að vera ekki lengur elsti maður liðs síns!
 
,,Það er nú m.a. ástæðan fyrir því að ég samdi við Skallagrím. Ég er ekki lengur elstur þökk sé Sigmari og verð alltaf með honum í liði á æfingum. Sá elsti byrjar alltaf með boltann!"
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024