Páll Axel afgreiddi Njarðvíkinga
Páll Axel Vilbergsson fór hamförum fyrir Grindvíkinga í kvöld þegar Njarðvík og Grindavík mættust í Ljónagryfjunni í Iceland Express deild karla. Páll Axel skoraði 41 stig fyrir Grindvíkinga sem unnu góðan sigur, 84-98 og hafa unnið báða leiki sína í deildinni í vetur.
Njarðvíkingar byrjuðu betur í leiknum og leiddu með fjórum stigum þegar fyrsti leikhluti var allur, 26-22. Grindvíkingar náðu hins vegar að komast yfir með góðum kafla í öðrum leikhluta. Staðan í hálfleik var 50-53 fyrir Grindvíkinga og var Páll Axel búinn að skora 27 stig í fyrri hálfleik.
Grindvíkingar lögðu grunn að góðum sigri sínum í þriðja leikhluta. Með góðri vörn náðu gestirnir góðri forustu sem þeir héldu til leiksloka.
Eins og áður segir átti Páll Axel frábæran leik. Hann skoraði 41 stig, tók 14 fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Frábær leikur hjá Páli Axel sem skoraði 39 stig í fyrsta leik Grindavíkur í deildinni gegn Stjörnunni. Brenton Birmingham skoraði 16 stig og Þorleifur Ólafsson skoraði 14 stig fyrir þá gulklæddu.
Hjá Njarðvík var Friðrik Stefánsson atkvæðamestur með 20 stig, en hann tók einnig 12 fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Logi Gunnarsson var einnig með 20 stig í kvöld og Hjörtur Rafn Einarsson skoraði 15 stig.
Njarðvíkingar hafa farið illa af stað í deildinni og tapað báðum sínum leikjum meðan Grindvíkingar hafa unnið sína leiki. Njarðvík fær tækifæri til að vinna sinn fyrsta leik í deildinni í vetur á fimmtudaginn þegar liðið mætir Stjörnunni í Garðabænum. Stjarnan hefur farið vel af stað og hefur unnið báða leiki sína í deildinni. Grindvíkingar mæta Tindastól á heimavelli á föstudagskvöld.
Tölfræði leiksins.
VF-MYNDIR/Hilmar Bragi