Pálína leiddi Keflvíkinga til sigurs
Pálína María Gunnlaugsdóttir kveikti í Vodafonehöllinni í gærkvöldi þegar Íslands- og bikarmeistarar Keflavíkur unnu öruggan sigur á nýliðum Vals. Lokatölur voru 70-84 Keflavík í vil en gestirnir frá Reykjanesbæ snögghitnuðu í þriðja leikhluta og röðuðu niður þristum með Pálínu í broddi fylkingar sem var að öðrum ólöstuðum í liði Keflavíkur besta kona vallarins. Pálína lauk leik með 27 stig, 5 fráköst, 3 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Karfan.is var á staðnum.
Með sigrinum í kvöld komst Keflavík upp í 3. sæti deildarinnar með fjögur stig en tvö önnur lið hafa jafn mörg stig en þau eru Fjölnir og Njarðvík.
Keflvíkingar mættu með svæðispressu í Vodafonehöllina og féllu svo aftur í svæðisvörn en Valskonur voru hvergi bangnar og varnir liðanna voru svona frekar á hælunum fyrstu mínúturnar og staðan fljótt 10-10.
Keflavík komst í 14-17 þegar Valur tók leikhlé og komst að nýju eftir stuttan fund upp að hlið Keflavíkur 19-19 með þriggja stiga körfu frá Kristrúnu Sigurjónsdóttur þegar 20 sekúndur voru eftir af leikhlutanum.
Fyrstu augnablikin í öðrum leikhluta voru á pari við fyrsta leikhluta, áherslan frekar á sóknarleikinn en annað. Gestirnir úr Keflavík urðu fyrri til að herða varnarleikinn og náðu fyrir vikið í 10 stiga mun, 28-38.
Heimakonur í Val náðu þó að koma muninum undir tíu stigin fyrir hálfleik og staðan 35-41 í leikhléi eftir gegnumbrot frá Melissu Leichlitner sem gerði síðustu stig fyrri hálfleiks með gegnumbroti og voru þetta jafnframt hennar fyrstu stig í leiknum.
Kristrún Sigurjónsdóttir var stigahæst hjá Val í hálfleik með 13 stig og 4 fráköst. Hjá Keflavík voru Jaleesa Butler og Pálína María Gunnlaugsdóttir með 11 stig en Butler auk þess 8 fráköst og 5 stoðsendingar.
Eftir rétt rúma mínútu í síðari hálfleiks tóku Valskonur leikhlé þar sem Ágúst Björgvinsson þjálfari liðsins lét þær heyra það, þjálfarinn var ósáttur við byrjun liðsins á leikhlutanum en það átti bara eftir að síga á ógæfuhliðina.
Ljósið í myrkri Valskvenna í síðari hálfleik var hin 15 ára gamla Margrét Ósk Einarsdóttir sem kom inn á í sínum fyrsta meistaraflokksleik fyrir Val og setti niður fyrsta skotið sitt, lagleg þriggja stiga karfa sem leit þar dagsins ljós.
Um leið og Valskonur fóru að beita svæðisvörn í síðari hálfleik lifnaði heldur betur yfir Pálínu Gunnlaugsdóttur sem hóf að raða niður þriggja stiga körfunum. Tvær frá Pálínu í röð breyttu stöðunni í 50-63 og Lovísa Falsdóttir bætti annarri við skömmu síðar og Keflavík leiddi 51-66 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Magnaður leikhluti hjá Keflavík sem voru 1/6 í þristum áður en Valur fóru í svæðisvörn en hrukku heldur betur í gang þegar opnu skotin gáfust.
Fjórði leikhluti var aldrei spennandi og Keflavík náði snemma upp 20 stiga forskoti, á lokasprettinum gerði Valur snarpa atlögu að forystunni og náði að minnka muninn í 70-84 sem reyndust lokatölur í Vodafonehöllinni í kvöld.
Pálína var besti maður leiksins með 27 stig eins og áður greinir, Jaleesa Butler mætti með tröllatvennu í 15 stigum og 15 fráköstum, hún var ekki fjarri þrennunni með 7 stoðsendingar í þokkabót. Birna Valgarðsdóttir bætti við 16 stigum og Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 13 stig og var með 3 stolna bolta.
Myndir/ Tomasz Kolodziejski – [email protected]
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]