Pálína frá í 8-12 vikur
Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Grindavíkur í Domino´s deild kvenna staðfesti í dag að Pálína María Gunnlaugsdóttir verður frá leik með Grindvíkingum næstu 8-12 vikurnar eða svo. Pálína er með rofið liðband í hné.
„Rofið liðband varð niðurstaðan, hún er ekki úr leik þetta tímabilið og gæti verið klár í kringum mánaðarmótin janúar-febrúar,“ sagði Jón Halldór í samtali við Karfan.is.
Grindvíkingar eru sem stendur í 5. sæti deildarinnar. Pálína hefur leikið afar vel í vetur og skorað 17,4 stig, tekið 9,1 frákast og gefið 4,3 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hún hefur verið kjörinn besti leikmaður Íslandsmótsins síðustu tvö árin.