Óvön því að vera í þriðja sæti
-Pálína tekur áskoruninni í Grindavík
Pálína Gunnlaugsdóttir kom körfuboltageiranum á Íslandi í opna skjöldu þegar hún söðlaði um og yfirgaf Keflvíkinga í sumar. Hún gekk til liðs við nágrannana í Grindavík þar sem hún sóttist eftir nýrri áskorun. Henni virðist hafa orðið að ósk sinni því fyrrum félagar hennar í Keflavík hafa verið illviðráðanlegir á meðan Grindvíkingar hafa átt brokkgengnu gengi að fagna. „Ég finn vel fyrir þessari áskorun. Ég hef sett mikla pressu á mig í einhverjum leikjunum í vetur. Ég er nú bara þannig gerð að ég vil alltaf skila 100% framlagi. Það getur verið gott en stundum kemur það manni í koll,“ segir Pálína í samtali við Víkurfréttir. Hún segist kunna ágætlega við sig í herbúðum Grindvíkinga. Liðsfélagarnir séu léttir og skemmtilegir og alltaf sé stutt í grínið.
„Móralinn er flottur og stendur kvennaráðið vel á bakvið okkur, þær eru til að mynda ekki búnar að missa að leik hjá okkur í vetur og er það okkur mikils virði,“ segir bakvörðurinn.
„Ég lít enn á mig sem Keflvíking þó svo að ég hafi skipt um lið og viljað prófa eitthvað nýtt, enda er ekkert óeðlilegt að fólk vilji þróast og þroskast í leik og starfi.“
Pálína er ekki alveg nógu sátt við frammistöðu liðsina það sem af er vetri, en Grindvíkingar hafa tapað fjórum af níu leikjum sínum í deildinni. „Ég veit að það býr miklu meira í okkur heldur en við erum búnar að sýna sem lið. Það má samt ekki gleyma að í Grindavíkurliðinu eru átta nýir einstaklingar af 12 manna hóp. En við þurfum bara að vera jákvæðar og halda áfram að vinna í okkar leik.“
Í sumar, eftir að Pálína tók ákvörðun um að ganga til liðs við fyrrum þjálfara sinn hjá Keflavík, Jón Halldór Eðvaldsson, var útlitið ekkert of bjart hjá Grindvíkingum. Í ljós kom að Petrúnella Skúladóttir væri barnshafandi og myndi ekki leika með liðinu. Ólöf Helga Pálsdóttir hélt erlendis í nám og Harpa Hallgrímsdóttir ákvað að hætta körfuboltaiðkun.
„Það var mjög sérstakt, þetta var mjög skrýtið fyrst og ekki eins og ég bjóst við. Við vorum fáar á æfingu til að byrja með og kom það ekki i ljós fyrr en i byrjun september hvaða stelpur ætluðu að vera með. Að lokum bættust Ingibjörg, Alda, Katrín og Hrund við hópinn og þá fór þetta upp á við eftir það. Það var erfitt að heyra að Petrúnella yrði ekki með liðinu i vetur, en Maja [Ben Erlingsdóttir] kom eins og kölluð inn í byrjun september, þá fyrst náðist mynd á liðið.“ Pálína viðurkennir að hún hafi verið orðin frekar óróleg þegar óvissa var með leikmannahópinn. „Já ég viðurkenni að ég fékk smá í magann, alltaf erfitt að vera í svona óvissu, sama í hvaða liði þú ert.“
Erfitt að spila í Sláturhúsinu í Keflavík
Í vikunni áttust Grindvíkingar og Keflvíkingar við í Röstinni og þar unnu Keflvíkingar öruggan sigur. Liðin áttust við fyrr í vetur þar sem Keflvíkingar höfðu sigur. Pálína fann ekki fjölina sína á gamla heimavellinum í þeim leik. „Það var mjög erfitt að koma til Keflavíkur og spila, ég viðurkenni það. Ég undirbjó mig líka kolvitlaust fyrir leikinn, það varð mér að falli. Það er erfitt að koma og spila í Keflavík hvort svo sem maður er Pálína Gunnlaugs eða einhver önnur, þetta hús heitir ekki Sláturhúsið fyrir ekki neitt.“ Pálína segist undrandi á því hve margir hafi afskrifað Keflvíkinga fyrir tímabilið. Hún bjóst við Keflvíkingum sterkum og samgleðst þeim yfir góðu gengi. „Það er alls ekki erfitt að horfa upp á velgengni þeirra, ég samgleðst þeim mjög mikið. Því ekki má gleyma að þetta eru búnar að vera bestu vinkonu mínar sl. sex ár. Við áttum frábært tímabil saman í fyrra og ég væri ekki sá leikmaður sem ég er í dag ef þær hefðu ekki hjálpað mér. Ég lít enn á mig sem Keflvíking þó svo að ég hafi skipt um lið og viljað prófa eitthvað nýtt, enda er ekkert óeðlilegt að fólk vilji þróast og þroskast í leik og starfi.“
Fráköst hafa ekkert með hæð að gera
Pálina hefur hvergi slegið slöku við á vellinum og sjaldan eða aldrei leikið betur. Sérstaka athygli hefur vakið hve vel henni hefur gengið að sækja fráköstin af stóru stelpunum. Pálína er með rúmlega 10 fráköst á meðaltali í leik og er hún í sjötta sæti deildarinnar í þeim flokki. Leikmenn á þeim lista eru flestir um og yfir 1,80 cm á meðan Pálína er 1,68 cm á hæð. Hún segir þetta ekkert hafa að gera með hæðina. „Mig langar að vera best og það hefur margoft sýnt sig að maður þarf ekki að vera stór til þess að taka fráköst, maður þarf bara að vera duglegur.“
Aðspurð um möguleika Grindvíkinga á titlum í vetur segir Pálína að öll lið deildarinnar eigi líklega möguleika á titlum, svo jöfn sé deildin í ár. „Ég held að árið í ár snúist um hvaða stelpur ætli að leggja mest á sig, þær munu standa uppi sem sigurvegarar. Við Grindvíkingar settum okkur markmið í haust og erum á áætlun hvað það varðar. Það er ekki hægt að segja annað en að þetta líti ágætlega út hjá okkur þó svo að maður sé ekki sáttur núna við að vera i þriðja sæti, enda er maður ekki vanur því. Það er mikið eftir og verðum við að laga það sem hefur orðið okkur að falli i þessum tapleikjum, það ætti ekki að vera erfitt og ég hef engar stórar áhyggjur af því,“ sagði Pálína að lokum.