Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Óvænt uppgjöf í Ljónagryfjunni
Varnarleikur Njarðvíkinga var slakur í kvöld og leið gestanna að körfunni oft og tíðum galopin. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 8. desember 2023 kl. 22:13

Óvænt uppgjöf í Ljónagryfjunni

Það voru sannarleg óvænt útkoma í nágrannaslag Njarðvíkur og Keflavíkur í Subway-deild karla sem fram fór í Ljónagryfjunni í kvöld. Heimamenn í Njarðvík voru hreinlega ekki tilbúnir í slaginn og Keflvíkingar unnu afgerandi sigur.

Njarðvík - Keflavík 82:103

Fyrirfram bjuggust flestir við hörkuleik eins og jafnan er þegar þessi tvö lið mætast. Leikurinn fór hins vegar hægt af stað, leikmenn beggja liða virtust taugaveiklaðir og leikur liðanna tilviljanakenndur. Eftir fyrsta leikhluta leiddu heimamenn með tveimur stigum (19:17).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Elías Pálsson brýtur á Remy Martin sem leiddi Keflvíkinga til sigurs í kvöld.

Í öðrum leikhluta hrisstu Keflvíkingar af sér slenið með Remy Martin í broddi fylkingar. Hann skilaði heilum 23 stigum í fyrri hálfleik og má segja að með hans frammistöðu hafi úrslitin ráðist, gestirnir gengu til klefa í hálfleik með ellefu stiga forystu (40:51) og litu aldrei til baka.

Njarðvíkingar komust alls ekki í takt við leikinn og í þriðja leihluta juku Keflvíkingar enn við forystu sína, á meðan heimamenn gerðu fimmtán stig skoruðu gestirnir 27 stig og höfðu afgerandi forskot fyrir lokaleikhlutann (55:78).

Keflvíkingar voru oft grimmir í vörninni og það skilaði árangri. Hér nær Sigurður Pétursson til boltans.
Þorvaldur Orri Árnason brýst í gegn en fyrirliði Keflvíkinga, Halldór Garðar Hermannsson, brýtur á honum.

Í fjórða leikhluta var einungis formsatriði að ljúka leik, Keflavík búið að vinna og uppgjöf í Njarðvíkingum. Að lokum unnu Keflvíkingar rúmlega tuttugu stiga sigur og eru efstir í deildinni á innbyrðissigrum en jafnir Álftanesi, Njarðvík, Val og Þór Þorlákshöfn að stigum.

Remy Martin var með 33 stig í kvöld fyrir Keflavík og næstur honum var Sigurður Pétursson með sautján. Hjá Njarðvík var Þorvaldur Orri Árnason með 21 stig og Mario Matasovic með tuttugu, þessir tveir báru af í liði heimamanna.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttaritari Víkurfrétta, tók meðfylgjandi myndir og ræddi við Sigurð Pétursson, leikmann Keflavíkur, að leik loknum.

Njarðvík - Keflavík (82:103) | Subway-deild karla 8. desember 2023