Óvænt tap Keflavíkurkvenna í Hveragerði
Keflavíkurkonur töpuðu óvænt 86-82 fyrir botnliði Hamars í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik í kvöld. Fyrir leikinn hafði Hamar aðeins unnið einn leik í deildinni en Keflavík er í 2. sæti.
Þær Birna Valgarðsdóttir og Rannveig Randversdóttir léku ekki með Keflavík í kvöld en óhætt er að segja að ósigur Keflavíkurkvenna hafi borið nokkuð óvænt að enda höfðu fyrri leikir liðanna ávallt endað með stórsigri Keflavíkur.
Stigahæst í liði Keflavíkur í kvöld var TaKesha Watson með 31 stig en hjá Hamri gerði Latreece Bagley 33 stig.
Síðast umferðin í Iceland Express deild kvenna fer fram þann 14. mars þegar Keflavík mætir Haukum í Sláturhúsinu og þar verður Keflavík að landa sigri svo 2. sætið sé öruggt í deildinni og þar með heimaleikjarétturinn í úrslitakeppninni. Grindavíkurkonur sækja hart að Keflavík um 2. sætið og ræðst það ekki fyrr en í síðustu umferð hvort Keflavík eða Grindavík muni leika með heimavallaréttinn sín megin í úrslitakeppninni þegar liðin mætast þar í fyrstu umferð.
VF-mynd/ Watson var stigahæst hjá Keflavík í kvöld en það dugði skammt.