Ótrúlegur Njarðvíkursigur í Keflavík
Njarðvíkingar unnu sætan sigur í mögnuðum leik í Dominos deildinni í körfuknattleik karla við nágranna sína úr Keflavík í Toyota höllinni í bítlabænum eftir framlengdan leik. Hjörtur Einarsson skoraði sigurkörfu þeirra grænklæddu þegar 3 sekúndur voru til leiksloka í framlengingu. Lokatölur urðu 91-92.
„Þetta var ótrúlegur leikur, eins og leikir gerast bestir milli þessara liða. Við vorum að elta allan tímann en svo þurftu þeir að jafna í venjulegum leiktíma. Síðan skiptust liðin á forystu í framlengingu. Þetta var bara rosalegt og yndislegt að vinna,“ sagði Elvar Már Friðriksson, leikmaður Njarðvíkinga eftir sigurinn.
Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflvíkinga var ekki alveg jafn hress og hinn ungi Njarðvíkingur og sagði dómarana hafa flautað sitt lið út úr leiknum. „Við lékum vel en lentum í villuvandræðum sem voru ósanngjörn. Ég held að það hafi allir séð það sem voru hérna inni að dómararnir voru á svakalegum villigötum.“
Keflvíkingar voru mun betri framan af og leiddu með tíu stigum í hálfleik 48-38. Magnús Gunnarsson var sjóðheitur í liði heimamanna og skoraði 17 stig fyrir hlé. Njarðvíkingar voru hins vegar ekki á því að gefast upp og sóttu í sig veðrið þegar á leikinn leið og komust síðan yfir í blá lokin. Heimamenn þurftu undrakörfu á síðustu sekúndunni til að jafna en það gerði Stephen McDowell.
Njarðvíkingar voru sterkari í upphafi framlengingarinnar og skoruðu fimm fyrstu stigin. Heimamenn svöruðu fyrir sig og náðu 3 stiga forskoti þegar rétt rúm hálf mínúta var eftir með tveimur vítaskotum McDowells. Nigel Moore svaraði að bragði með þristi og jafnaði leikinn. Keflvíkingar náðu ekki að skora og leiktíminn var að renna út þegar Hjörtur Einarsson tók varnarfrákast og Keflvíkingar brutu á honum þegar 3 sek. voru eftir og hann fékk tvö vítaskot. Hann skoraði úr fyrra vítinu en Njarðvíkingar náðu frákastinu og leiktíminn rann út. Ótrúlegur sigur þeirra grænu.
Magnús Þór Gunnarsson skoraði 25 stig fyrir Keflavík og Darrel Lewis 20. Hjá Njarðvík voru stigahæstir þeir Nigel Moore með 22 stig, Maciej Baginski með 19 og Elvar Már Friðriksson með 18.
Videoviðtöl og myndskeið úr leiknum koma á vf.is á morgun föstudag.
McDowell jafnaði fyrir Keflavík á síðustu sekúndu venjulegs leiktíma 79-79. VF-myndir/Páll Orri.
Elvar Már skorar tvö af 18 stigum sínum í leiknum.
Nigel Moore jafnaði fyrir Njarðvík þegar hálf mínúta var eftir í framlengingu.