Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Ótrúleg skemmtun í Njarðvík
Mánudagur 28. október 2013 kl. 21:13

Ótrúleg skemmtun í Njarðvík

- Keflvíkingar sigruðu eftir magnaða sigurkörfu

Það var boðið upp á körfubolta af bestu gerð í Njarðvík í kvöld. Þá fór fram hinn íslenski El classisco, þar sem nágrannarnir Njarðvík og Keflavík tókust á í Dominos-deild karla. Leiknum lauk með 85-88 sigri gestanna frá Keflavík, en úrslitin réðust í blálokin þegar Gunnar Ólafsson skoraði magnaða þriggja stiga körfu úr horninu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Strax frá upphafi var ljóst að liðin ætluðu sér að skemmta áhorfendum en þriggja stiga körfunum byrjaði að rigna fljótlega. Guðmundur Jónsson setti tóninn á sínum gamla heimavelli og kveikti í troðfullri Ljónagryfjunni. Hinum megin var Logi Gunnarsson funheitur en hann skoraði alls 19 stig í fyrri hálfleik leiksins. Njarðvíkingar hittu mjög vel í fyrri hálfleik og leiddu nokkuð verðskuldað með  fimm stigum.

Bæði lið voru að pressa stíft í vörninni og boðið var upp á svæðisvörn. Oft á tíðum var töluvert um mistök hjá báðum liðum og fyrir vikið var leikurinn hraður og hin mesta skemmtun fyrir áhorfendur.

Í síðari hálfleik mættu Keflvíkigar tilbúnir í varnarleiknum. Eftir að Njarðvík hafði skorað 32 stig í fyrsta leikhluta, skoruðu heimamenn ekki nema 38 stig í næstu tveimur fjórðungum til samans. Njarðvíkingar höfðu lengst af yfirhöndina en Keflvíkingar komust yfir í þriðja leikhluta og virtust á tímabili ætla að landa sigri þegar munurinn var orðinn 11 stig.

Miðað við hraðann og sóknarleikinn í leiknum þá var ekki hægt að bóka neitt og Njarðvíkingar voru ekki á því að tapa sínum fyrsta leik á tímabilinu gegn erkifjendunum á heimavelli sínum. Með ótrúlegum hætti tókst Njarðvíkingum að minnka niður 11 stiga forystu Keflvíkinga og jafna leikinn með þriggja stiga körfu þegar fimm sekúndum lifðu af leiknum. Þar var að verki hinn tvítugi Ágúst Orrason sem setti niður þrist á ögurstundu. Allt útlit fyrir framlengingu.

Á hinum endanum var svo komið að Gunnari Ólafssyni, öðrum ungum kappa, sem setti niður magnað þriggja stiga skot í horninu fyrir framan Njarðvíkurstúkuna. Ótrúlegt skemmtun og þvílíkur leikur! Njarðvíkum tókst ekki að skora enda voru einungis 0,6 sekúndur eftir af leiknum og Keflvíkingar því enn ósigraðir í deildinni eftir þrjá leiki. Mikil stemning var á leiknum og halda mætti að úrslitakeppnin væri farin af stað. Njarðvíkingar hittu kannski óvenju vel í fyrri hálfleik, en þeir virkuðu ragir gegn Keflavíkurvörninni á köflum í seinni hálfleik. Að sama skapi verður að hrósa Keflvíkingum fyrir vörnina sem líklega tryggði þeim sigur í leiknum.

Michael Craion var flottur í liði Keflavíkur með 24 stig og Guðmundur Jónsson var með 17 stig. Hetjan Gunnar Ólafsson skoraði 11 stig og var seigur í vörninni. Logi Gunnarsson skoraði 22 stig fyrir Njarðvík og Elvar Már Friðriksson var með 17 stig.


Njarðvík-Keflavík 85-88 (32-24, 21-24, 17-19, 15-21)

Njarðvík: Logi Gunnarsson 22/5 fráköst, Elvar Már Friðriksson 17/12 stoðsendingar, Ágúst Orrason 14, Nigel Moore 13/16 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 10, Friðrik E. Stefánsson 7/6 fráköst, Egill Jónasson 2/6 fráköst/4 varin skot, Ragnar Helgi Friðriksson 0, Óli Ragnar Alexandersson 0, Magnús Már Traustason 0, Ólafur Helgi Jónsson 0, Halldór Örn Halldórsson 0.

Keflavík: Michael Craion 24/12 fráköst, Guðmundur Jónsson 17, Darrel Keith Lewis 14/11 fráköst/6 stoðsendingar, Valur Orri Valsson 12/6 stoðsendingar, Gunnar Ólafsson 11/6 fráköst, Arnar Freyr Jónsson 7/4 fráköst, Þröstur Leó Jóhannsson 3, Hafliði Már Brynjarsson 0, Andri Daníelsson 0, Ólafur Geir Jónsson 0, Ragnar Gerald Albertsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0.
Dómarar: