Óþarflega spennandi Keflavíkursigur
Keflavík vann botnlið HK, 3-2, í Landsbankadeild karla í gærkvöldi í dramatískum leik. Keflvíkingar náðu fljótlega yfirhöndinni í leiknum og voru meira með boltann til að byrja með. HK átti þó fyrsta alvöru færi leiksins en Iddi Alkhag átti skot fyrir HK sem fór yfir markið.
Fyrsta markið leit dagsins ljós á 15. mínútu eftir að Símun Samuelsen hafði unnið boltann á miðjum vallarhelmingi HK, stakk boltanum inn á fyrirliða Keflavíkur, Guðmund Steinarsson, sem lagði boltann snyrtilega í netið framhjá Gunnleifi Gunnleifssyni í marki HK.
HK settu meir þunga í sóknarleikinn eftir þetta en það voru heimamenn sem áttu síðasta orðið í fyrri hálfleik. Guðjón Árni Antoníusson fékk dæmda aukaspyrnu sem Guðmundur Steinarsson framkvæmdi. Boltinn rataði beint á kollinn á Kenneth Gustafsson sem kom Keflvíkingum í 2-0 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Margir hafa vafalaust haldið að eftirleikurinn yrði auðveldur hjá Keflvíkingum en annað átti eftir að koma á daginn. Mitja Brulc minnkaði muninn á 73. mínútu með góðu skoti. Eftir markið þjörmuðu heimamenn að HK og komust ítrekað einir í gegnum vörn HK. Heimamenn náðu ekki að gera sér mat úr fjölda færa og því kom það eins og köld vatnsgusa í Keflvíkinga þegar Brulc jafnaði metinn. Aðeins tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma þegar Brulc jafnaði með laglegu skoti.
Keflvíkingar bitu hins vegar í skjaldarrendur og náðu að tryggja sér öll stigin með marki frá Herði Sveinssyni sem kom af varamannabekknum í kvöld. Hann skoraði eftir að hafa komist einn í gegnum vörn HK á 90. mínútu við mikinn fögnuð heimamanna.
Sigurinn er Keflvíkingum dýrmætur enda er liðið í mikilli baráttu við FH um Íslandsmeistaratitilinn. Keflvíkingar hefðu auðveldlega getað gert út um leikinn í síðari hálfleik en gerðu leikinn kannski óþarflega spennandi. Heimamenn eru eftir sem áður með 30 stig í öðru sæti deildarinnar, einu stigi á eftir FH.
VF-Mynd/Hilmar Bragi: Hörður Sveinsson rennir hér boltanum framhjá Gunnleifi í marki HK.