Óskarsstund í Kópavogi
Vinstri fóturinn á Óskari Erni Haukssyni landaði þremur stigum í gærkvöldi þegar Grindavík heimsótti Breiðablik í Kópavoginn í Landsbankdadeild karla í knattspyrnu. Grindavík hefur nú sjö stig í þriðja sæti Landsbankadeildarinnar þegar fjórum umferðum er lokið.
Nokkuð jafnt var á með liðunum í upphafi leiks en gestirnir frá Grindavík tóku smám saman völdin. Á 19. mínútu braust Jóhann Þórhallsson inn í teiginn og upp að endalínu og sendi knöttinn fyrir markið. Hjörvar Hafliðason, markvörður Breiðabliks, náði ekki að halda boltanum og Óli Stefán Flóventsson var réttur maður á réttum stað og kom knettinum í netið. Breiðablik 0-1 Grindavík.
Eftir markið tvíefldust Grindvíkingar og hefðu stuttu síðar átt að bæta við að minnsta kosti einu marki en þess í stað komust heimamenn inn í leikinn á ný þegar vítaspyrna var dæmd á Óðinn Árnason fyrir að handleika knöttinn í vítateignum. Marel Baldvinsson tók spyrnuna á 42. mínútu og jafnaði metin 1-1 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Blikar komu dýrvitlausir til seinni hálfleiks og mark frá þeim grænu var aðeins tímaspursmál en það var nú óþarfi hjá Ray Jónssyni, sem kom inn á sem varamaður, að gefa Blikum markið. Heimamenn áttu aukaspyrnu utan við vítateig og þegar spyrnan reið af rétti Ray út aðra höndina og stöðvaði boltann og því réttilega dæmd vítaspyrna sem Marel Baldvinsson skoraði úr af öryggi og staðan því 2-1 Blikum í vil þegar 20 mínútur voru til leiksloka.
Grindvíkingar hafa nú fengið dæmdar á sig fjórar vítaspyrnur í þremur leikjum og þykir þeim gulu það fullmikið af því góða.
Þegar 10 mínútur voru til leiksloka rann upp „Óskarsstund.“ Á 82. mínútu lék Óskar Örn Hauksson upp vinstri kantinn og fór þar illa með tvo varnarmenn Blika áður en hann renndi boltanum á Sinisa Kekic sem skilaði honum aftur á Óskar. Markið var í sigtinu, það viðraði vel til loftárása og ekkert eftir en að taka í gikkinn. Hjörvar í Blikamarkinu missti enn á ný af boltanum þrátt fyrir að hafa náð aðeins til hans en boltinn hafnaði í netmöskvanaum og Grindvíkingar því búnir að jafna metin 2-2.
Aðeins tveimur mínútum síðar komu önnur „Óskarsverðlaun“ í hlut Grindvíkinga þegar Sinisa Kekic sendi boltann fyrir markið en Blikar hreinsuðu frá hátt í loft upp. Ókar Örn Hauksson og vinstri fóturinn hans tóku við boltanum og létu vaða á markið umvafinn tveimur varnarmönnum Breiðabliks um fjóra metra fyrir utan teig. Hár bolti upp í vinstra netið, óverjandi fyrir markvörð Blika. Breiðablik 2-3 Grindavík og Óskar Örn hetja sinna manna með vinstri fótinn að vopni.
Heilt yfir áttu Grindvíkingar góðan dag þrátt fyrir slappar upphafsmínútur í seinni hálfleik en þeir Óskar Örn, Sinisa Kekic og Paul McShane áttu ljómandi góðan leik. Þá var Colin Stewart á milli stanganna hjá Grindavík í fyrsta skiptið í sumar og fékk á sig tvö mörk bæði úr vítaspyrnum en annars varði hann oft meistaralega og það dylst engum að þarna er gríðarlega sterkur markvörður á ferð.
„Við byrjuðum af miklum krafti í leiknum og vorum þá að spila okkar besta leik í sumar,“ sagði Eysteinn Hauksson í samtali við Víkurfréttir. Aðspurður um allar þessar vítaspyrnur sem Grindvíkingar hafa fengið dæmdar á sig sagði Eysteinn að Grindvíkingar væru alls ekki sáttir við þær og sagði að heppnin væri ekki með þeim í þessum dómum. „Við rifum okkur bara upp eftir að hafa lent undir en „Óskar bróðir“ kveikti í okkur með frábæru jöfnunarmarki og það þriðja var fimm sinnum frábærara og hann átti mestan þátt í þessum sigri. Óskar reif okkur upp eftir að við höfðum verið alveg eins og aumingjar hérna í seinni hálfeik,“ sagði Eysteinn í leikslok.
Staðan í deildinni
[email protected]
Óskar Örn, hetja Grindavíkur, þegar um 4 mínútur eru til leiksloka í gærkvöldi og staðan 2-3 Grindavík í vil.