Öruggur sigur Noregs
Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik tapaði með 22 stiga mun gegn Noregi í B-deild Evrópukeppninnar í dag. Lokatölur leiksins voru 47-69 Norðmönnum í vil en leikurinn fór fram í Sláturhúsinu í Keflavík.
Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og var staðan 15-18 fyrir Norðmenn að loknum 1. leikhluta. Íslenska liðið missti dampinn í 2. leikhluta og Norðmenn fóru með níu stiga forskot í leikhlé, 28-37.
Í síðari hálfleik bættu gestirnir við muninn þrátt fyrir fínar rispur íslenska liðsins. Lokatölur urðu eins og áður greinir 47-69 og var þetta annar tapleikur liðsins í röð.
Birna Valgarðsdóttir gerði 14 stig fyrir Ísland en Kristine Austgulen gerði 24 stig hjá Noregi. Ísland mætir svo Írum þann 23. september n.k. og fer leikurinn fram í Sláturhúsinu í Keflavík kl. 14:00. Það er jafnframt síðasti leikur liðsins í þessum hluta keppninnar en síðari hlutinn verður leikinn á næsta ári.
[email protected]