Öruggur sigur Njarðvíkinga í Vesturbænum
Njarðvíkingar unnu góðan 0-3 útisigur gegn KV í 2. deild karla í fótbolta í gær. Mörkin létu á sér standa en á síðustu 13 mínútum leiksins komust Njarðvíkingar í gírinn. Hafsteinn Gísli Valdimarsson skoraði þá fyrsta mark gestanna en þremur mínútum síðar hafði Theódór Guðni Halldórsson bætt öðru marki við fyrir Njarðvíkinga. Hafsteinn Gísli innsiglaði svo sigurinn þegar tvær mínútur lifðu af leiknum með sínu öðru marki.
Njarðvíkingar hafa nú unnið tvo leiki og gert eitt jafntefli það sem af er tímabili og sitja í þriðja sæti deildarinnar.