Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Öruggur sigur Keflvíkinga
Föstudagur 6. janúar 2006 kl. 18:22

Öruggur sigur Keflvíkinga

Keflvíkingar unnu góðan sigur á ÍR í Iceland Express-deild karla í gær, 102-94. Með sigrinum komust þeir upp að hlið Grindvíkinga í 3. sæti deildarinnar.

ÍR mættu baráttuglaðir til leiks, en Keflvíkingar voru alltaf skrefinu á undan í upphafi leiks. AJ Moye, sem er nú kominn í leikbann, átti góðan leik fyrir Keflvíkinga í byrjun leiks ásamt þeim Halldóri Halldórssyni og Gunnari Einarssyni, en Fannar Helgason hélt ÍR-ingum á floti.

Staðan eftir 1. leikhluta var 24-19. Í 2. leikhluta sigu heimamenn í Keflavík framúr og náðu mest 11 stiga forskoti, en með seiglu héldu gestirnir sér í leiknum og minnkuðu muninn í 48-42 áður en flautað var til hálfleiks.

Stórskyttan Magnús Þór Gunnarsson hafði ekki enn fundið fjöl sína og aðeins hitt úr 1 af 5 skotum sínum. Það breyttist hins vegar í 3. leikhluta þegar allt virtist fara ofan í hjá honum. en hann skoraði 16 af 22 stigum sínum í leikhlutanum.

Bilið breikkaði stöðugt milli liðanna og munurinn fór upp í 18 stig áður en haldið var inn í lokahlutann, 80-62. Lykilmenn ÍR, þeir Theo Dixon og Eiríkur Önundarson voru alls ekki að finna sig í leiknum fyrr en ljóst var í hvað stefndi.

Í síðasta leikhlutanum börðust gestirnir þó með kjafti og klóm og á meðan voru meistararnir full værukærir, en þeir héldu út og lönduðu loks góðum sigri.

Í hálfleik voru þrír Keflvíkingar heiðraðir, en þeir Elentínus Margeirsson og Halldór Halldórsson léku sinn 200 leik og Gunnar Einarsson, fyrirliði, sinn 600 leik.

VF-myndir/Þorgils

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024