Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Öruggur sigur Keflavíkur á Grindavík
Sunnudagur 31. ágúst 2008 kl. 20:10

Öruggur sigur Keflavíkur á Grindavík

Keflavík styrkti stöðu sína á toppi Landsbankadeildar karla eftir frækilegan sigur á Grindavík, 3-0, í kvöld. Keflvíkingar sýndu margar af sýnum bestu hliðum og náðu að brjóta varnarmúr Grindvíkinga á bak aftur.

Fyrri hálfleikurinn var ekki mikið fyrir augað. Grindvíkingar lágu aftarlega á vellinum og gáfu fá færi á sér. Keflvíkingar voru þ.a.l. meira með boltann en náðu þó ekki að skapa sér mörg marktækifæri. Fyrsta alvöru færi leiksins átti fyrirliði Keflavíkur, Guðmundur Steinarsson, en ágætt skot hans fór framhjá markinu. Guðmundur átti annað gott færi 10 mínútum síðar en skot hans fór rétt framhjá markinu eftir að Grindvíkingar höfðu hreinsað frá marki eftir hornspyrnu.



Grindvíkingar sýndu litla tilburði í sínum sóknarleik og átti Scott Ramsey besta færi þeirra í fyrri hálfleik, en skot hans fór í varnarvegginn eftir að Grindvíkingar fengu aukaspyrnu á hættulegum stað. Staðan í hálfleik var því markalaus.

Seinni hálfleikurinn var mun fjörugri en sá fyrri. Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 65. mínútu og var Jóhann Birnir Guðmundsson þar að verki. Jóhann var réttur maður á réttum stað þegar hann náði til knattarins og setti boltann snyrtilega framhjá Zancarlo Simunic í marki Grindavíkur af stuttu færi.

Við markið virtust Grindvíkingar vakna af værum blundi og settu aukinn kraft í sóknarleikinn. Tomasz Stolpa átti gott langskot sem Ómar Jóhannsson í marki Keflavíkur varði vel. Stuttu seinna fengu Grindvíkingar gott færi til að jafna metin. Jósef K. Jósefsson slapp einn inn fyrir vörn Keflavíkur og í staðinn fyrir að skjóta renndi hann boltanum út í teig þar sem varnarmenn Keflavíkur voru mættir og komu boltanum fram.

Það var því eins og köld vatnsgusa framan í leikmenn Grindavíkur þegar að heimamenn bættu við öðru marki í næstu sókn. Guðmundur Steinarsson var þar að verki eftir laglegan undirbúning frá Magnúsi Þorsteinssyni, sem hafði komið inn á sem varamaður skömmu áður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

.

Magnús átti svo lokaorðið í leiknum þegar hann skoraði þriðja mark Keflavíkur eftir frábæran einleik í teig Grindvíkinga þar sem hann lék á þrjá varnarmenn Grindvíkinga. Glæsilegt mark hjá Þorsteini og markagæfa varamanna Keflavíkur heldur áfram, en þeir hafa verið ansi iðnir við kolann fyrir framan mark andstæðinganna í sumar.

Eftir leiki kvöldins eru Keflvíkingar komnir með fimm stiga forskot á FH sem á einn leik til góða. Keflavík hefur hlotið 40 stig í efsta sætinu en FH er með 35. Íslandsmeistarar Vals mistókst að blanda sér í titilbaráttuna eftir að þeir biðu lægri hlut fyrir botnliði ÍA á heimavelli í kvöld. Grindvíkingar sigla lygnan sjó í deildinni og er í 7. sæti með 24 stig þegar fjórum umferðum er ólokið.

Langt er í næstu leiki Suðurnesjaliðanna. Laugardaginn 13. september taka Grindvíkingar á móti Fylki á heimavelli en Keflvíkingar halda í Grafarvoginn og etja kappi við Fjölni.


VF-MYNDIR/Hilmar Bragi