Öruggur sigur hjá Grindavík
Grindavík vann öruggan heimasigur á nýliðum Vals í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik í Röstinni í kvöld. Lokatölur urðu 88-47, Grindvíkingum í vil.
Signý Hermannsdóttir var ekki með liði Vals í kvöld og Íris Sverrisdóttur vantaði í lið Grindavíkur, en báðar eiga þær við meiðsli að stríða.
Nokkuð jafnræði var með liðunum í byrjun leiks, en um miðjan 1. leikhluta skildu leiðir og gengu Grindavíkurstúlkur á lagið og var staðan 28-9 eftir 1. leikhluta. Valskonur komu sterkari til leiks í öðrum leikhluta en áttu í vandræðum með sterkt lið Grindvíkinga. Í hálfleik var staðan 44-25.
Það sama var upp á teningnum í síðari hluta leiksins og fór leikurinn eins og fyrr sagði 88-47.
Atkvæðamest í liði Grindavíkur var Tiffany Roberson en hún átti mjög góðan dag og skoraði 21 stig auk þess að taka 19 fráköst og gefa 21 stoðsendingu. Næst kom svo Joanna Skiba með 16 stig og Ólöf Helga Pálsdóttir með 9 stig. Hjá Val var Hafdís E. Helgadóttir atkvæðamest með 16 stig, Kristjana Magnúsdóttir með 10 stig og Tinna Sigmundsdóttir með 8 stig.
Næsti leikur Grindavíkur verður sannkallaður nágrannaslagur, er þær etja kappi við Keflavík í Sláturhúsinu, miðvikudaginn 31. október.