Öruggur Njarðvíkursigur í endurkomu Elvars

Njarðvík heldur í við granna sína frá Keflavík en liðin sitja á toppi Domino's deildar karla með 12 stig eftir að Njarðvíkingar lögðu granna sína frá Grindavík, 79-90, í Röstinni í kvöld. Grindvíkingar eru í 10. sæti með 4 stig eftir leikinn.

Njarðvíkingar mættu með liðsstyrk til Grindavíkur en Elvar Már Friðriksson var aftur kominn í græna búninginn eftir að hann yfirgaf heimaslóðirnar árið 2014.

Þeir grænklæddu voru skrefinu á undan í fyrri hálfleik og náðu mest 11 stiga forystu. Staðan var 38-45 gestunum frá Njarðvík í vil en þeir voru að skjóta rúmlega 50% fyrir utan og settu 10 þrista í hálfleiknum.

Njarðvíkingar leiddu með 11 stigum þegar haldið var í siðasta leikhluta. Þeir héldu því forskoti og bættu í þar til Grindvíkingar lögðu árar í bát.

Með tilkomu Elvars er breidd Njarðvíkinga orðin umtalsverð, en hún var það svo sem fyrir en bekkur Njarðvíkinga hefur verið stigahæstur af öllum liðum deildarinnar.

Mario var bestur Njarðvíkinga með 20 stig, 11 fráköst og 4 varin skot. Elvar og Jeb Ivey voru báðir með 15 stig og Maciek með 14.

Hjá Grindavík var Jordy Kupier með 24 stig og hitti frábærlega. Bamba var með 18 stig og Ólafur Ólafs með fína tvennu, 11 stig og 10 fráköst.