Öruggt hjá Keflvíkingum
Keflavík fékk Valskonur í heimsókn í Toyota-höllina í gærkvöldi þar sem Valskonur veittu heimakonum litla fyrirstöðu. Leikurinn endaði 89-62 Keflavík í vil og voru þær Pálína Gunnlaugsdóttir og Jaleesa Butler stigahæstar með 23 stig hvor. Hjá Val var Melissa Leichlitner með 25 stig og sú eina með lífsmark í sínu liði. Þá tefldi Keflavík fram nýjum leikmanni innan sinnar raða en hún heitir Shanika Butler, er frænka Jaleesa Butler, og kemur frá Bandaríkjunum.
Leikurinn var ekki sá allra besti sem spilaður hefur verið hér á landi. Hann var aldrei spennandi og var Keflavík með forystuna frá fyrstu mínútu leiksins. Fyrri hálfleikurinn einkenndist af því að Valskonur voru að gera mikið af mistökum sem að Keflavík voru fljótar að refsa fyrir. Það var gjörsamlega ekkert að gerast hjá Völsurum og var leikurinn eftir því. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 40-20 fyrir Keflavík sem hreinlega áttu leikinn. Hjá Keflavík var J. Butler komin með 16 stig og Pálína með 14 stig, en hjá Val var Lacey Simpson með 10 stig.
Í seinni hálfleik voru Valskonur að spila stífari vörn og ætluðu að koma sér aftur inn í leikinn. Það kom aðeins líf í tuskurnar en það stóð stutt þar sem leikurinn fór aftur í sama horfið þar sem heimakonur hreinlega áttu völlinn. Það var aldrei spurning hver myndi vinna leikinn heldur hversu stórt Keflavík myndi vinna. Eins og í fyrri hálfleik þá voru tveir „buzzerar“ sem var aðal skemmtunin fyrir áhorfendur á leiknum, en Birna Valgarðsdóttir var með einn fallegan í þriðja leikhlutanum og Leichlitner í þeim fjórða.
Það má segja að allt Keflavíkurliðið hafi verið að spila vel í kvöld og allir að setja sitt mark á leikinn. Stigahæstar eins og áður sagði var Pálína og J. Butler báðar með 23 stig. J. Butler splæsti einnig í 18 fráköst, 4 stoðsendingar og 3 varin skot og Pálína var að auki með 7 fráköst, 4 stolna og 3 stoðsendingar. Nýi leikmaður þeirra S. Butler spilaði nokkuð vel sinn fyrsta leik og endaði með 13 stig, 7 stoðsendingar og 4 stolna.
Hjá Val var Leichlitner eina með lífsmark í döprum leik liðsins. Hún endaði með 25 stig, 4 stoðsendingar, og 3 stolna. Simpson splæsti í tvennu 10 stig og 14 fráköst og þá var María Ben Erlingsdóttir með 10 stig og 8 fráköst.
Umfjöllun Karfan.is