Öruggt hjá Keflavík
Keflavík vann öruggan sigur á Hamri/Selfossi í Iceland Expressdeild kvenna í kvöld, 96-59.
Sigurinn hefði getað verið enn stærri ef ekki hefði komið til deyfð yfir Keflvíkingum, sem léku þó á heimavelli, í upphafi seinni hálfleiks. Í stað þess að gera út um leikinn hleyptu þær nýliðunum inn í leikinn aftur og verður að segja þeim til hróss að Hamarsstúlkur gáfust aldrei upp þótt móti blési.
Hamar/Selfoss vann þriðja leikhluta, 18-21.
Í síðasta leikhlutanum sýndu Keflvíkingar sitt rétta andlit á ný og nú var ekkert gefið eftir. Gestirnir gerðu 11 stig á móti 27 þar sem sterkur varnarleikur Keflvíkinga gerði þeim lífið leitt.
Jón Eðvaldsson, þjálfari Keflvíkinga, var afar ósáttur við að stúlkurnar hans hafi ekki náð að halda dampi allan leikinn.
„Þetta var algjört einbeitingarleysi hjá okkur og ekkert nema aumingjaháttur. Við vorum að leika á móti liði sem á að vera mun lakara en við en við eigum að leika af fullum krafti allan tímann. Það skilur góð lið frá lélegum.“
Bryndís Guðmundsdóttir var stigahæst Keflvíkinga með 19 stig en næstar henni voru þær TaKesha Watson og María Ben Erlingsdóttir með 17 stig hvor.
VF-Mynd/Þorgils