Orri Freyr farinn norður
Nú er endanlega öruggt að Orri Freyr Hjaltalín gengur til liðs við Þór á Akureyri á ný og leikur með uppeldisfélagi sínu í 1. deildinni í knattspyrnu næsta sumar. Þórsarar náðu í morgun samkomulagi við Grindvíkinga um starfsflok Orra hjá Suðurnesjaliðinu en hann átti þrjú ár eftir af samningi sínum. Frá þessu er greint á mbl.is.
Þar segir ennfremur að Orri hafi spilað 110 leiki með Grindavík í efstu deild og spilaði 12 leiki þar með Þór árið 2002. Samtals hefur Orri leikið 220 deildaleiki með félögunum tveimur, en auk þess lék hann fjóra leiki með Tromsö í norsku B-deildinni haustið 2002.
VFmynd: Óskar Pétursson tók við fyrirliðabandinu af Orra Frey nú í sumar en ljóst er að Orri hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Grindvíkinga.