Örninn setti vallarmet í Leirunni - meistaramót í næstu viku
Örn Ævar Hjartarson úr GS lék frábært golf á Hólmsvelli í Leiru í dag. Hann lék á 63 höggum eða níu höggum undir pari af hvítum teigum. Hringurinn var flekklaus því Örn fékk níu fugla og níu pör á hringum sem var hluti af bikarkeppni betri kylfinga GS.
Örn atti kappi gegn Jóni Jóhannssyni og vann Örn leikinn á 11. holu. Vallarmetið fæst staðfest því Örn lék út allar holur og því um fullkomalega löglegan hring að ræða. Hann fékk sex fugla á fyrri níu holunum. „Ég byrjaði á að fá þrjá fugla í röð og svo par á fjórðu holu. Svo komu þrír fuglar til viðbótar og þá ætlaði ég mér að slá vallarmetið,“ sagði Örn Ævar.
Meistaramót er á næsta leiti hjá GS og því hefur Örn Ævar verið að æfa sig að undanförnu. „Ég er í undirbúningi fyrir meistaramótið og hef verið nokkuð duglegur að spila síðustu tvær vikur. Ég ætla mér auðvitað sigur í meistaramótinu og verð svo með í Íslandsmótinu á Kiðjabergsvelli.“
Meistaramót GS er stærsta mót ársins hjá klúbbnum en þá munu nálægt 200 kylfingar spreyta sig á Hólmsvelli, flestir í 4 daga.