Örn í 2. sæti á Korpunni
Kylfingurinn Örn Ævar Hjartarson varð annar um helgina þegar annað stigamót Kaupþings mótaraðarinnar í gofi fór fram á Korpúlfsstaðarvelli í Reykjavík. Aðeins voru leiknir tveir hringir í mótinu sökum veðurs en keppni hófst á þriðja hring á sunnudag en sá hringur var síðar blásinn af sökum slæmra veðurskilyrða.
Sigurpáll Geir Sveinsson úr GKJ hafði sigur í mótinu en hann lauk keppni á 146 höggum en Örn hafnaði í 2. sæti ásamt tveimur öðrum kylfingum en allir luku þeir keppni á 152 höggum.
Í kvennaflokki var það Nína Björk Geirsdóttir sem hafði sigur en hún lauk keppni á 156 höggum.
Þegar tveimur stigamótum er lokið er Örn þriðji stigahæsti kylfingurinn með 102,67 stig en efstur er Alfreð Brynjar Kristinsson og í 2. sæti er Sigurpáll Geir Sveinsson.
Heiða Guðnadóttir úr GS lauk keppni í 7. sæti á 166 höggum og að loknum tveimur stigamótum er hún í 12. sæti á mótaröðinni með 30 stig.
Næsta stigamót Kaupþings mótaraðarinnar fer fram á Hólmsvelli í Leiru dagana 22. og 23. júní.
Nánar um mótið í máli og myndum á www.kylfingur.is