Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Örn Arnarson valinn Íþróttamaður Reykjanesbæjar 2003
Miðvikudagur 31. desember 2003 kl. 14:53

Örn Arnarson valinn Íþróttamaður Reykjanesbæjar 2003

Örn Arnarson, sundkappi úr ÍRB var valinn Íþróttamaður Reykjanesbæjar fyrir árið 2003 í athöfn sem haldin var í íþróttahúsinu í Njarðvík fyrr í dag. Gunnar Einarsson, körfuknattleiksmaður úr Keflavík, var í öðru sæti og Jóhann Kristjánsson, borðtenniskappi úr íþróttafélaginu Nes, hafnaði í því þriðja.

Örn er sannarlega vel að þessari viðurkenningu kominn, en þetta er annað árið í röð sem hann hlýtur nafnbótina. árangur hans á árinu var frábær sem endranær og vann hann til 9 meistaratitla og vann til silfurverðlauna á Evrópumótinu í 25m laug sem fór fram í desember. Þá setti Örn 11 Íslandsmet og 2 Norðurlandamet sem sýna svo ekki verður um villst að hann er í stöðugri sókn sem sundmaður og er alltaf að bæta sig.

Í samtali við Víkurfréttir sagði Örn að þessi heiður hafi komið honum nokkuð á óvart. En finnst honum flutningurinn frá SH til Íþróttabandalags Reykjanesbæjar hafa gert ferli hans gott? „Já, tvímælalaust. Ég þurfti annað umhverfi og aðra sýn á íþróttina og það hef ég svo sannarlega fengið hér.“

Á næsta ári standa Ólympíuleikarnir í Aþenu í ágúst upp úr og leggur Örn höfuðáherslu á að ná árangri þar, en Evrópumeistaramótið í 50m laug er líka á dagskrá auk móta innanlands.

Við athöfnina í dag hlutu allir Íslandsmeistarar Reykjanesbæjar viðurkenningu fyrir afrek sín, en þeir voru samtals 175 talsins að þessu sinni. Þá voru þeir íþróttamenn sem skarað hafa fram úr á í hverri grein heiðraðir fyrir árangur sinn á árinu sem er að líða.

Badminton Þorgerður Jóhannsdóttir Keflavík
Fimleikar Eva Berglind Magnúsdóttir Keflavík
Golf Örn Ævar Hjartarson GS
Hestaíþróttir Sveinbjörn Bragason Máni
Hnefaleikar Skúli Vilbergsson HFR
Íþróttamaður fatlaðra Jóhannes Rúnar Kristjánsson Nes
Taekwondo Normandy Del Rosario Keflavík
Knattspyrna Þórarinn Kristjánsson Keflavík
Körfuknattleikur Gunnar Einarsson Keflavík
Lyftingar Freyr Bragason UMFN
Sund Örn Arnarson Keflavík
Skotfimi Ásgeir Svan Vagnsson Keflavík
Siglingar Svava Magdalena Böðvarsdóttir Knörr

Víkurfréttir óska verðlaunahöfum til hamingju með árangurinn á árinu sem er að líða og áframhaldandi velgengni á því næsta

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024