Örn Arnarson valinn Íþróttamaður Reykjanesbæjar 2003
Örn Arnarson, sundkappi úr ÍRB var valinn Íþróttamaður Reykjanesbæjar fyrir árið 2003 í athöfn sem haldin var í íþróttahúsinu í Njarðvík fyrr í dag. Gunnar Einarsson, körfuknattleiksmaður úr Keflavík, var í öðru sæti og Jóhann Kristjánsson, borðtenniskappi úr íþróttafélaginu Nes, hafnaði í því þriðja.
Örn er sannarlega vel að þessari viðurkenningu kominn, en þetta er annað árið í röð sem hann hlýtur nafnbótina. árangur hans á árinu var frábær sem endranær og vann hann til 9 meistaratitla og vann til silfurverðlauna á Evrópumótinu í 25m laug sem fór fram í desember. Þá setti Örn 11 Íslandsmet og 2 Norðurlandamet sem sýna svo ekki verður um villst að hann er í stöðugri sókn sem sundmaður og er alltaf að bæta sig.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Örn að þessi heiður hafi komið honum nokkuð á óvart. En finnst honum flutningurinn frá SH til Íþróttabandalags Reykjanesbæjar hafa gert ferli hans gott? „Já, tvímælalaust. Ég þurfti annað umhverfi og aðra sýn á íþróttina og það hef ég svo sannarlega fengið hér.“
Á næsta ári standa Ólympíuleikarnir í Aþenu í ágúst upp úr og leggur Örn höfuðáherslu á að ná árangri þar, en Evrópumeistaramótið í 50m laug er líka á dagskrá auk móta innanlands.
Við athöfnina í dag hlutu allir Íslandsmeistarar Reykjanesbæjar viðurkenningu fyrir afrek sín, en þeir voru samtals 175 talsins að þessu sinni. Þá voru þeir íþróttamenn sem skarað hafa fram úr á í hverri grein heiðraðir fyrir árangur sinn á árinu sem er að líða.
Badminton | Þorgerður Jóhannsdóttir | Keflavík |
Fimleikar | Eva Berglind Magnúsdóttir | Keflavík |
Golf | Örn Ævar Hjartarson | GS |
Hestaíþróttir | Sveinbjörn Bragason | Máni |
Hnefaleikar | Skúli Vilbergsson | HFR |
Íþróttamaður fatlaðra | Jóhannes Rúnar Kristjánsson | Nes |
Taekwondo | Normandy Del Rosario | Keflavík |
Knattspyrna | Þórarinn Kristjánsson | Keflavík |
Körfuknattleikur | Gunnar Einarsson | Keflavík |
Lyftingar | Freyr Bragason | UMFN |
Sund | Örn Arnarson | Keflavík |
Skotfimi | Ásgeir Svan Vagnsson | Keflavík |
Siglingar | Svava Magdalena Böðvarsdóttir | Knörr |
Víkurfréttir óska verðlaunahöfum til hamingju með árangurinn á árinu sem er að líða og áframhaldandi velgengni á því næsta