Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Miðvikudagur 28. mars 2001 kl. 21:55

Orkan entist aðeins fyrri hálfleikinn

Keflavíkurstúlkur er komnar 0-2 undir í einvígi þeirra við bikarmeistara KR í úrslitaviðureignunum um Íslandsmeistaratitilinn. Fyrrum samherji þeirra, Hanna Kjartansdóttir, kom KR-ingum á sporið í upphafi leiks með nokkrum góðum körfum en Keflvíkingar náðu strax áttum og var staðan 23-25 eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta náðu KR-ingar aftur spretti í upphafi en Keflvíkingar enduðu hálfleikinn betur og með skoti frá miðjum náði Brooke Shwartz að minnka muninn í 5 stig 35-40. Í seinni hálfleik þraut Keflavíkurstúlkur orkuna og það var eins og við manninn mælt, bikarmeistarar KR settu í fluggírinn og var staðan orðin 41-62 í lok þriðja leikhluta. Yfirburðir KR minnkuðu ekkert í síðasta leikhlutanum og fóru leikar 52-77 og staða KR-stúlkna jafn vænleg og staða karlaliðs þeirra er vonlítil. Brooke Shwartz var yfirburðamaður í liði Keflvíkinga og Kristín Blöndal átti stórgóðan fyrri hálfleik en aðrir leikmenn máttu sér lengstum lítils gegn KR vörninni. Allt liðið á þó heiður skilið fyrir baráttuviljann í fyrri hálfleik en eftir að KR hafði náð 15 stiga forystu í seinni hálfleiknum skorti þær gulklæddu hreinlega sóknarvopnin til að jafna leikinn á ný. Miklu munar þar að Erla Þorsteinsdóttir er ekki nema skugginn af sjálfum sér vegna bakmeiðsla og að Birna Valgarðsdóttir er einnig í takmörkuðu hlutverki vegna meiðsla. Hjá bikarmeisturunum voru þær Heather Corby og Hanna mest áberandi í þeim jafna og breiða hóp leikmanna sem Henning Henningsson, þjálfari liðsins, hefur úr að moða. Möguleikar Keflavíkurstúlkna eru afar litlir og þarf toppleik frá öllum leikmönnum, áhorfendum og þjálfara til að þeim takist að snúa taflinu við.

Þriðji leikur liðanna verður á laugardagkl. 16:00 í KR-húsinu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024