Opnar klukkan hálfátta á sunnudagsmorgni
Fastlega má reikna með að meginþorri Íslendinga sofi ekki út í fyrramálið þegar stærsta stund íslenskrar íþróttasögu rennur upp. Þá kemur í ljós hvort íslenska handboltaliðinu tekst að vinna til gullverðlaunanna á Ólympíuleikunum í Peking er það mætir Frökkum.
Atvinnulífið á Suðurnesjum sem og annars staðar var hálf lamað um hádegisbilið í gær þegar íslenska liðið vann frækinn sigur á Spánverjum og tryggði sér silfurverðlaunin. Handboltaæði er runnið á þjóðina sem verður örugglega árrisul í fyrramálið þegar stóra stundin rennur upp. Heyrst hefur af veitingahúsum sem ætla að opna snemma í fyrramálið til að landinn geti notið leiksins á risaskjá. Eitt þeirra er Paddy´s í Reykjanesbæ.
„Jú, þetta er óneitanlega mjög óvenjulegur opnunartími en við ætlum að opna húsið kl. 7:30 í fyrramálið af þessu tilefni. Það er varla hægt að líkja því saman að horfa á svona stórleik einn heima í stofu eða í brjálaðri stemmningu í góðra vina hópi,“ sagði veitingamaðurinn Jói á Paddy´s í samtali við VF í dag.
Hann vildi þó leggja áherslu á að þessi opnun væri alls EKKI hugsuð sem eftirpartý eftir næturdjammið enda verður öllum áberandi ölvuðum einstaklingum vísað á dyr.
„Þetta á að vera eintóm gleði og hamingja því íslensku strákarnir eru þegar orðnir sigurvegarar, hvernig sem leikurinn fer,“ sagði Jói.