Opin vika í stækkandi Metabolic
Hafa skapað „Cheers stemningu“
Nú stendur yfir opin vika í Metabolic í Reykjanesbæ þar sem öllum gefst kostur á að prófa alla tíma. Þjálfunarstöðin hefur komið eins og ferskur blær inn í heilsuræktarflóruna í bæjarfélaginu og gerir út á hágæða þjálfun og heimilislegt andrúmsloft. Vegna aukinnar aðsóknar og fjölbreytni í þjálfun stækkar stöðin núna um 200 fermetra og býður nú uppá þrjár tegundir af Metabolictímum.
Það eru þau Helgi Jónas Guðfinsson og Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir sem stýra þjálfunarstöðinni og segja þau viðbrögðin við opnu vikunni hafa farið framúr björtustu vonum. ,,Flest allir sem koma og prófa hafa heyrt jákvæðar sögur frá þjálfuninni í gegnum vini og kunningja" segir Gunnhildur og bætir við að stór hópur Metabolicara hafa aldrei fundið sig inná líkamsræktarstöðvum en eru að elska að koma í Metabolic. Við finnum að fólkið sem velur Metabolic sækir í að fá góða þjálfun frekar en aðgang að tækjasal. Það vill geta komið á mismunandi tímum dagsins á vinalegan stað og æfa eftir markvissu æfingakerfi eins og Metabolic sem er alltaf stýrt af faglærðum þjálfara. Við höfum náð að skapa góða ,,Cheers stemningu“ í Metabolic - þar sem allir þekkja alla og mikil stemning myndast í tímunum.
Þar sem iðkendahópurinn í Metabolic hefur stækkað mikið höfum við núna erfiðleikaskipt æfingakerfinu í þrjú stig. ,,Þannig geta algjörir byrjendur sem vilja komast í gott alhliða form og hin mestu hreystimenni sem vilja stunda lyftingaþjálfun, fundið þjálfunartíma í Metabolic við sitt hæfi" segir Helgi og bendir á að ef fólk er að byrja eftir langt hlé sé best að byrja á grunnnámskeiði en næsta námskeið hefst einmitt 26. ágúst.
Þeir sem eru í góðu formi geta byrjað beint í opnu tímunum okkar, segir Helgi, en opna vikan er einmitt sérstaklega ætluð til að fólk geti prófað mismunandi tíma og séð hvernig það er að fíla stöðina og kerfið. Mín reynsla er sú að fólk helst í þeirri hreyfingu sem því finnst skemmtileg. Ef því finnst hreyfingin leiðinleg heldur það kannski út í nokkrar vikur og gefst síðan upp. Við viljum að fólkið sem stundar Metabolic sé í því af heilum hug og bjóðum því uppá 30 daga ánægjutryggingu þannig að ef fólk kaupir kort í Metabolic þá hefur það 30 daga til að segja því upp.
Það vita kannski færri að þau Gunnhildur og Helgi sjá ekki einungis um Metabolic í Reykjanesbæ heldur um allt land og er kerfið núna kennt á 12 stöðum um allt land. Sannkallaðir frumkvöðlar þarna á ferð sem ætla sér enn stærri hluti í framtíðinni.