Ómar: Samkeppnin af hinu góða
Markvörður Keflavíkur, Ómar Jóhannsson, fagnar þeim fregnum að Bjarki Guðmundsson gæti verið á leið til félagsins og segir samkeppnina vera af hinu góða og að hann þurfi ekki að sanna sig að nýju fyrir Kristjáni þjálfara.
„Bjarki er góður markvörður og það er ekki nóg að vera bara með einn markmann,“ sagði Ómar í samtali við Víkurfréttir en Magnús Þormar hefur ákveðið að ganga til liðs við Stjörnuna í Garðabæ. „Magnús er góður markvörður og ég þurfti að sanna mig í sumar þegar hann var hjá Keflavík en ég tel að ég þurfi ekki að sanna mig að nýju hjá Kristjáni heldur halda áfram á sömu braut,“ sagði Ómar.
Von er á markmannsþjálfara Keflavíkur, Rajko, til landsins snemma á nýja árinu en Ómar sagði á síðustu leiktíð að hann hefði sjaldan eða aldrei verið í betra formi eftir að Rajko kom til Keflavíkur. „Það er munur að fá svona góðan markmannsþjálfara með sér og hann var með hörkuæfingar sem ýtir manni aðeins lengra. Ég er bæði farinn að hlakka til og kvíða fyrir komu hans,“ sagði Ómar kátur í bragði en hann má sætta sig við að vera án markmannsþjálfara uns Rajko kemur til landsins.
[email protected]