Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ólst upp í Eyjabyggðinni
Jón Óli hefur mikla trú á liði sínu og yrði fyrir miklum vonbrigðum ef svo ólíklega skildi fara að þær féllu.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 3. september 2021 kl. 14:00

Ólst upp í Eyjabyggðinni

Eyjamaðurinn Jón Ólafur Daníelsson þjálfar meistaraflokk kvenna í knattspyrnu hjá Grindavík en liðið er nýliði í Lengjudeildinni í ár. Tímabilið fór ekkert sérstaklega vel af stað hjá Grindvíkingum en þær hafa sýnt stöðugar bætingar eftir því sem liðið hefur á leiktíðina og eru komnar í ágætis stöðu til að halda sæti sínu í deildinni. Jón Óli flutti til Keflavíkur í gosinu og á góðar minningar frá Suðurnesjum. Víkurfréttir heyrðu í Jóni eftir ótrúlegan leik Grindavíkur gegn FH á dögunum sem endaði með 4:4 jafntefli eftir að útlit væri fyrir að heimaliðið væri að landa sigri með marki rétt fyrir leikslok en gestirnir náðu að jafna mínútu síðar.

„Þetta var svakalegur leikur,“ segir Jón Óli um leikinn gegn FH en Grindavík er komið langleiðina með að forða sér frá falli. Sætið er þó ekki alveg orðið tryggt, Grindavík er í sjötta sæti Lengjudeildar kvenna en aðeins munar tveimur stigum á sjötta sætinu og því næstneðsta svo það er ekkert í hendi enn. „Já, þetta er farið að líta betur út en það er bara svo margir innbyrðis leikir eftir að við þyrftum eiginlega að ná að landa einum sigri í viðbót. Það eru náttúrlega bara tvær umferðir eftir, leikir gegn HK hér heima og Víkingi úti eftir.“

Hvernig líst þér á það sem framundan er?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Maður er náttúrlega svolítið kvíðinn því það getur brugðið til beggja vona. Maður verður bara að vona það besta og að við höldum sætinu í deildinni.

Stelpurnar hafa stigið upp eftir því sem hefur liðið á mótið. Við erum búin að vera svakalega óheppin á tímabilinu, það hefur lítið fallið með okkur en fyrir vikið hafa þær sýnt þeim mun meiri karakter og í sjálfu sér hefur hver einasti leikur sem við höfum spilað í sumar verið hnífjafn. Það er mikið hrós til leikmanna að hafa náð þessum framförum miðað við að það var svolítið verið að rúlla yfir okkur í vetur.

Við erum búin að sýna það í okkar leikjum gegn toppliðunum að þetta lið á heima í deildinni, erum búin að gera jafntefli og vinna Aftureldingu og gera jafntefli við KR og FH.“

Nánast allir leikir Grindavíkur í sumar hafa verið hnífjafnir og spennandi baráttuleikir.

Knattspyrnuferilinn hófst í Keflavík

Jón Óli er Eyjamaður en flutti upp á land í gosinu og bjó í Keflavík í átta ár. „Þar hóf ég minn knattspyrnuferil, í viðlagasjóðshúsunum í Eyjabyggðinni. Þaðan eigum við félagarnir stórkostlegar minningar.

Svo fór ég aftur til Eyja en árin 2002 til 2007 bjó ég í Grindavík. Þá var mér boðið að koma hingað og þjálfa, ég ætlaði að koma í svona eitt ár en endaði í fimm. Ég missti konuna mína 2015, hún veiktist af krabbameini og það var ástæðan fyrir því að við fluttum aftur til Eyja.

Eftir það var ég eiginlega búinn að taka þjálfarahringinn í Eyjum þegar mér bauðst að koma aftur – ég ákvað bara að taka því og sé ekki eftir því, þetta er búið að vera mjög skemmtilegt. Síðan hef ég kynnst annari konu en fjölskyldan býr í Eyjum, hún er með góða vinnu þar í Íslandsbanka svo þetta er svona sjómannslíf á mér núna.“

Stefnir þú á að halda áfram með Grindavík?

„Við ákváðum að gera samning út þetta tímabil og það var fundur um daginn þar sem ég var spurður hvort ég hefði áhuga á að halda áfram. Síðan hefur ekkert meira gerst, staðan er nú bara óljós held ég. Ábyggilega bara að klára tímabilið og sjá svo til.“

Það yrðu mikil vonbrigði ef Grindavík skildi falla því liðið hefur sýnt það að þær eiga heima í Lengjudeildinni.

„Já, það yrði mjög fúlt – en mig langar að þakka því fólki sem hefur mætt á völlinn í sumar, fyrir að standa við bakið á okkur. Ég trúi því að það sé að fá fullt fyrir peninginn því þetta er hver háspennuleikurinn eftir annan hjá okkur,“ segir Jón Óli, þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Grindavík, að lokum.

Áhorfendur á leik með Grindavík í sumar.