Ólöf Edda náði góðum árangri á NM unglinga
Sundlið ÍRB átti þrjá fulltrúa í unglingalandsliði Íslands sem tók þátt í Norðurlandameistaramóti unglinga um liðna helgi, þetta voru þær Aleksandra Wasilewska, Jóhanna Júlía Júlíusdóttir og Ólöf Edda Eðvarðsdóttir.
Ólöf Edda hlaut silfurverðlaun í 200 metra bringusundi og bronsverðlaun í 400 metra fjórsundi þar sem hún gerði sér lítið fyrir og bætti Íslandsmetið í telpnaflokki um tæpar fjórar sekúndur. Þess má geta að Ólöf Edda er á fyrra ári í sínum aldursflokki. Jóhanna Júlía komst í úrslit í öllum sínum sundum og synti rétt við sína bestu tíma. Aleksandra synti 800 metra skriðsund og var aðeins frá sínum tíma.