Öll Suðurnesjaliðin töpuðu
Keflavík og Njarðvík töpuðu stórt og Grindavík átti ekkert í Stjörnuna
Suðurnesjaliðin í Domino’s deildinni í körfubolta töpuðu öll leikjum sínum í dag. Það gerist ekki oft en öll liðin áttu dapran dag og Keflavík og Njarðvík töpuðu stórt.
Börn í höndum KR
KR-ingar sigruðu Keflvíkinga örugglega í TM-höllnni í bítlabænum, oft nefnt Sláturhúsið en þeir röndóttu voru í hlutverki slátraranna í þessum leik í Domino’s deildinni í körfubolta. Lokatölur 82-105 fyrir Vesturbæinga sem voru með yfirhöndina í þremur leikhlutum af fjórum.
Keflvíkingar voru ákveðnir fyrstu mínúturnar í leiknum og skoruðu átta fyrstu stigin en síðan ekki söguna meir. „Við vorum skelfilegir hér í kvöld í öllum þáttum körfuboltans. Við vorum algerlega á hælunum og enginn taktur í þessu. Við vorum arfaslakir og eins og börn í höndunum á KR-ingum,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson í viðtali við Stöð 2 eftir leikinn.
Keflvíkingar unnu fyrsta leikhlutann 27-22 en KR vann annan hlutann með 14 stigum og leiddu í hálfleik með níu stigum. Þriði hlutinn var jafn en síðan stungu KR-ingar af og innbirtu öruggan sigur.
Nýr erlendur leikmaður Keflavíkur, Stanley Earl R. skoraði 17 stig og tók 9 fráköst en gerði líka mistök og á greinilega eftir að komast í betra form. Ragnar Örn Bragason skoraði 14 og Reggie Dupree 12 stig í slöku Keflavíkurliði.
Engin Stjörnubragur á heimamönnum
Grindvíkingar máttu líka þola tap á heimavelli þegar þeir fengu Stjörnuna í heimsókn. Lokatölur urðu 78-88 fyrir gestina. Stjarnan byrjaði með látum og leiddu 8-22 eftir fyrsta leikhluta og bættu sex stigum við forskotið í næsta og leiddu því með 20 stigum í hálfleik. Heimamenn komu aðeins til baka í þriðja leikhluta en náðu ekki að fylgja því eftir í loka leikhlutanum. Stjarnan fagnaði því tíu stiga sigri. Rashad Whack skoraði 29 stig fyrir heimamenn, Ingvi Þór Guðmundsson var næstur með 19 stig og Ólafur Ólafsson var með 14.
Njarðvík átti aldrei möguleika
Njarðvíkingar sáu aldrei til sólar gegn sterkum Haukum í Hafnarfirði sem unnu 108-75 á heimavelli. Haukar áttu stórleik og yfirspiluðu Njarðvíkinga. Aðeins í fyrsta leikhluta voru Njarðvikingar með í leiknum og voru aðeins 3 stigum undir en ekki söguna meir. Snjólfur Marel Stefánsson skoraði 19 stig og Logi var með 14 fyrir Njarðvík.
Nýi útlendingurinn hjá Keflavík lofar góðu en á eftir að komast í betri leikform og kynnast nýju liði.
Reggie Dupree átti góða spretti en það dugði lítið gegn KR-ingum.
Þröstur sagði í viðtali eftir leikinn að þetta hefði verið svona „bíbb“ leikur og erfitt að útskýra slaka frammistöðu