Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ólína til Chelsea
Ólína Viðarsdóttir í Hópinu 2009 þar sem hún var með knattspyrnunámskeið ásamt Eddu fyrir grindvískar stelpur. Mynd/grindavik.is
Fimmtudagur 24. janúar 2013 kl. 11:48

Ólína til Chelsea

Grindvíkingurinn Ólína G. Viðarsdóttir og sambýliskona hennar Edda Garðarsdóttir, landsliðskonur í knattspyrnu, sömdu í vikunni við enska félagið Chelsea um að leika með því á komandi keppnistímabili í ensku atvinnudeildinni, WSL-deildinni.  Chelsea hafnaði í sjötta sæti WSL-deildarinnar á síðasta ári en keppni þar fer fram frá mars og framí október.

Edda og Ólína hafa verið í röðum sænska úrvalsdeildarliðsins Örebro undanfarin fjögur ár og verið þar í stórum hlutverkum en Ólína var í barnsburðarleyfi á síðasta ári og lék ekkert með liðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Edda er 33 ára gömul og er næst leikjahæsta landsliðskona Íslands með 97 landsleiki. Ólína, sem er þrítug, er í 10.-11. sæti á þeim lista með 55 landsleiki.

Þar með eru þrjár íslenskar landsliðskonur komnar í WSL-deildina en Katrín Ómarsdóttir samdi á dögunum við Liverpool. Átta lið leika í deildinni en auk Chelsea og Liverpool eru það Arsenal, Birmingham, Everton, Bristol Academy, Lincoln og Doncaster. Deildin er sjálfstæð að því leyti að hún er ekki tengd við neðri deildir í Englandi en önnur tíu félög spila í ensku úrvalsdeildinni.