Óli Stefán til Grindavíkur
Leikjahæsti leikmaður Grindavíkur í efstu deild frá upphafi, Óli Stefán Flóventsson, hefur ákveðið að snúa á heimaslóðir og gengur til liðs við Grindavík þegar félagaskiptaglugginn opnast 15. júlí nk. Óli Stefán hefur leikið með norska 2. deildarliðinu Vard Haugasund í sumar þar sem hann hefur verið fastamaður í liðinu sem er í 3. sæti í sínum riðli.
Óli Stefán hefur leikið 183 leiki fyrir Grindavík í efstu deild og skorað 32 mörk en alls hefur hann leikið alls 202 leiki í efstu deild.
Þar sem Marko Valdimar Stefánsson meiddist illa í vinnuslysi í vikunni og Bogi Rafn Einarsson heldur til náms Bandaríkjunum í ágúst var ljóst að Grindavík þurfti á liðsstyrk að halda. Knattspyrnudeild Grindavíkur fagnar því að fyrrverandi fyrirliði liðsins, Óli Stefán, sé kominn heim í heiðardalinn og væntir mikils af honum, segir í tilkynningu frá UMFG.